Copy
Skjalafréttir Þjóðskjalasafns Íslands
Skoða Skjalafréttir í vafra
1. tbl. 5. febrúar 2015

Stefnumótun Þjóðskjalasafns Íslands 2014-2018

Þjóðskjalasafn Íslands hefur gefið út bækling um stefnu safnsins fyrir árin 2014-2018. Stefnan er sú fyrsta sem unnin er fyrir safnið með þátttöku starfsfólks og hagsmunaaðila en áður voru markmið Þjóðskjalasafns sett fram í árangursstjórnarsamningum við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Með sérstakri og heildstæðri stefnumótun er leitast við að setja Þjóðskjalasafni Íslands skýrari markmið en áður var gert og þar með renna styrkari stoðum undir bættan árangur á forsendum mælanlegra markmiða og kröfum um gagnsæi í opinberum rekstri.

Stefnumótunin var unnin á grundvelli nýrra laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið KPMG og voru starfsmenn og hagsmunaaðilar safnsins hafðir með í ráðum. Þeir aðilar sem leitað var til voru héraðsskjalaverðir, kennarar í sagnfræði við Háskóla Íslands, skjalastjórar ráðuneyta, fulltrúar Ættfræðifélagsins, Sögufélags, Sagnfræðingafélags Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, fulltrúar í stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns Íslands og nokkrir fleiri.

Hægt er að nálgast stefnumótunina í heild sinni og kynna sér hana með því að smella hér

Nýtt merki Þjóðskjalasafns

Samhliða nýrri stefnumótun fyrir Þjóðskjalasafn Íslands var hannað nýtt merki safnsins. Form, gerð og litur merkisins byggir á þremur fyrirmyndum. Lögun og litur vísar til innsiglis. Innsigli voru notuð frá miðöldum og fram á okkar daga til þess að staðfesta gerninga og undirskriftir. Rautt hringlaga, stundum sporöskjulaga, innsigli er áberandi einkenni á skjölum í Þjóðskjalasafni síðustu alda. Innsigli sýnir uppruna þeirra upplýsinga sem það staðfestir og er þannig tákn um öryggi og áreiðanleika.
 
Teikningin á innsiglisfletinum er sett saman úr tveimur þáttum. Í fyrsta lagi byggir það á vafningum í handskrifuðu letri fyrri alda. Þá er einkum að finna í upphafsstöfum og fyrirsögnum handskrifaðra texta eða í skreytingum á skjölum. Í öðru lagi tákna ferningarnir í kjarna merkisins punkta í stafrænni mynd.
 
Merkinu er ætlað að segja að Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir, um alla framtíð, af öryggi og trúmennsku, þann fjölbreytta menningararf sem því er falinn til vörslu, allt frá skinnskjölum miðalda til stafrænna upplýsinga samtímans.
 
Kría hönnunarstofa hannaði merkið.

ICA 2015 í Reykjavík – óskað eftir erindum

Þjóðskjalasafn Íslands mun í samstarfi við Alþjóða skjalaráðið (International Council on Archives - ICA), halda þriðju árlegu ráðstefnu ICA  27. til 29. september næstkomandi. Vefur ráðstefnunnar er Ica2015.is

Ráðstefnan verður haldin á Hótel Hilton Nordica og er von á 400-500 gestum hvaðanæva úr heiminum. Þetta er því einstakt tækifæri fyrir þá sem starfa við skjalavörslu og skjala- og upplýsingastjórnun hér á landi til að kynnast því sem efst er á baugi á þessu sviði.

Efni ráðstefnunnar að þessu sinni er „Archives: Evidence, Security & Civil Rights – Ensuring trustworthy information.“ Ráðstefnan er kjörið tækifæri til þess að auka þekkingu á þessum málaflokki hér á landi. Ráðstefnan er jafnframt tækifæri til þess að taka þátt í umræðunni með því að halda þar erindi.

Opið er fyrir umsóknir um að halda erindi á ráðstefnunni til 28. febrúar næstkomandi. Tillögur að erindum eru sendar í gegnum vef ráðstefnunnar í gegnum tengilinn að neðan.

Call for papers.

Hugtakið

Opinber skjalasöfn
Með nýjum lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 er hugtakið „opinber skjalasöfn“ skilgreint. Samkvæmt lögunum teljast opinber skjalasöfn: „Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn sem starfa í samræmi við rekstrarleyfi.“ (1. tl. 2. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn)
Vertu vinur okkar á Facebook
Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns
Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2015 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.


Hætta í áskrift    Uppfæra upplýsingar um áskrift 

Email Marketing Powered by Mailchimp