Copy
Skjalafréttir Þjóðskjalasafns Íslands
Skoða Skjalafréttir í vafra

Námskeið Þjóðskjalasafns Íslands

Eins og undanfarin ár mun Þjóðskjalasafn Íslands bjóða í vetur upp á námskeið um skjalavörslu afhendingarskyldra aðila. Í lögum um opinber skjalasöfn er hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands að leiðbeina um hvernig skjalastjórn og skjalavörslu skuli hagað hjá stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga svo og öðrum afhendingarskyldum aðilum og er einn þáttur í því námskeiðshald. Hvert námskeið verður haldið einu sinni þennan vetur.

Boðið er upp á þá nýjung að námskeiðin verða öll send út yfir vefinn og er þannig mætt óskum afhendingarskyldra aðila á landsbyggðinni að sækja sér fræðslu Þjóðskjalasafns á auðveldari hátt. 

Þjóðskjalasafn Íslands stóð fyrir könnun á fyrra hluta þessa árs og er ein af niðurstöðum hennar að skjalahald afhendingarskyldra aðila er almennt í betra horfi þar sem starfsmenn hafa sótt námskeið Þjóðskjalasafns. Til dæmis þá eru 87% afhendingarskyldra aðila, þar sem starfsmenn höfðu setið námskeið, með málalykil í flokkun á málasafninu sínu og eru 75% þeirra samþykktir eins og reglur gera ráð fyrir. Þá má einnig nefna að 87% afhendingaskyldra aðila, þar sem starfsmenn höfðu setið námskeið, skrá upplýsingar um mál sín eins og kveðið er á um í lögum á meðan 57% afhendingarskyldra aðila sem hafa starfsmenn sem ekki höfðu farið á námskeið gera slíkt hið sama.

Dagskrá námskeiða og verð er að finna í töflunni að neðan og skráning fer fram hér: Skráning á námskeið
 
4. október Er röð og regla á málasafninu? Skráning mála og gerð málalykla Njörður Sigurðsson 7.700
18. október Átak í skjalavörslu, skjalavistunaráætlun og grisjun Kristjana Kristinsdóttir, Árni Jóhannsson 10.000
1. nóvember Rafræn skjalavarsla: Skipulag og varðveisla rafrænna gagna S. Andrea Ásgeirsdóttir 7.700
7. febrúar Frágangur, skráning og afhending pappírsskjalasafna Árni Jóhannsson, Karen Sigurkarlsdóttir 10.000
7. mars Afhending rafrænna gagna: Gerð vörsluútgáfna S. Andrea Ásgeirsdóttir 7.700
4. apríl Pappírslaus skjalavarsla. Tilkynning og samþykkt rafrænna gagnakerfa S. Andrea Ásgeirsdóttir 7.700
 
 

Grisjun atvinnuumsókna og fylgiskjala

Af og til kemur það til umræðu hvort ekki megi grisja úr skjalasöfnum afhendingarskyldra aðila atvinnuumsóknir þeirra sem ekki fá starf sem auglýst er og fylgiskjöl umsóknanna. Meginreglan í skjalavörslu afhendingarskyldra aðila á Íslandi er alltaf varðveisla skjala enda segir í 24. gr. laga um opinber skjalasöfn að ekki megi eyða neinu skjali nema með heimild frá þjóðskjalaverði. Þjóðskjalasafn Íslands fær reglulega fyrirspurnir og beiðnir um eyðingu á atvinnuumsóknum en beiðnunum er nánast undantekningalaust hafnað.

Árið 2014 lét Þjóðskjalasafn vinna lögfræðiálit um grisjun á atvinnuumsóknum en einnig hefur álit álit umboðsmanns alþingis nr. 5890/2010 verið haft til hliðsjónar.

Samkvæmt lögfræðiálitinu brýtur eyðing atvinnuumsókna og fylgiskjala þeirra gegn rétti aðila máls til aðgangs að gögnum máls skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Að auki getur slík grisjun brotið gegn rétti aðila til aðgangs að upplýsingum um hann sjálfan skv. upplýsingalögum nr. 140/2012 en réttur aðila sem bundinn er í ofangreindum lögum er ekki bundinn sérstökum tímatakmörkunum og því þarf að varðveita þessi skjöl til frambúðar.

Niðurstaða umboðsmanns alþingis í máli nr. 5890/2010 er á svipuðum meiði og niðurstaða lögfræðiálitsins og því er ekki hægt að veita heimild fyrir grisjun á atvinnuumsóknum og fylgiskjölum þar sem réttur aðila máls er svo sterkur.

Nýr hugtakalisti

Þjóðskjalasafn Íslands vinnur þessa dagana að því að endurskoða leiðbeiningarrit sín og er hluti þeirrar vinnu hugtakalista sem finna má á vef safnsins. Nýr hugtakalisti er tilbúinn og má finna hann á eftirfarandi slóð: Hugtök og heiti
Vertu vinur okkar á Facebook
Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns
Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2016 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.


Hætta í áskrift    Uppfæra upplýsingar um áskrift 

Email Marketing Powered by Mailchimp