Copy
Skjalafréttir frá Þjóðskjalasafni Íslands.
 

Skjalafréttir Þjóðskjalasafns

9. júlí 2014 | 5.tbl.
 

Námskeið Þjóðskjalasafns Íslands 2014-2015

Dagskrá námskeiða Þjóðskjalasafns Íslands í skjalastjórn og skjalavörslu fyrir veturinn 2014-2015 hefur verið birt á vef safnsins. Vegna framkvæmda við endurbyggingu á kennsluaðstöðu í Þjóðskjalasafni næsta vetur verður breyting á staðsetningu námskeiða og fjölda. Kennsla fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar við Arngrímsgötu 3. Þá verða námskeiðin færri en verið hefur undanfarin ár eða sjö talsins en breytt aðstaða leyfir að hægt er að taka við fleiri þátttakendum á hvert námskeið. Fyrsta námskeiðið verður haldið þann 23. september nk.

Boðið verður upp á námskeið um alla helstu þætti í skjalastjórn og skjalavörslu stofnana, þ.e. um frágang pappírsskjalasafn, gerð málalykla og skráningu mála, tilkynningu rafrænna kerfa, afhendingu rafrænna gagna til Þjóðskjalasafns, skjalavistunaráætlun og hvernig skuli bæta skjalavörslu stofnana, um grisjun skjala og skipulag rafrænna gagna.

Upplýsingar um námskeiðin, skráningu og námskeiðsgjald er að finna hér.
 

Ný lög um opinber skjalasöfn

Ný lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 hafa tekið gildi. Lögin voru samþykkt af Alþingi síðla kvölds þann 16. maí síðastliðinn og fella úr gildi lög um Þjóðskjalasafn Íslands nr. 66/1985.

Ýmis nýmæli er að finna í lögunum og eru þau mun efnismeiri um ýmsa þætti í starfsemi opinberra skjalasafna en eldri lög um Þjóðskjalasafn Íslands. Lögunum er ætlað að mynda heildstæðari ramma um upplýsingarétt almennings en verið hefur. Þannig er í fyrsta skipti að finna efnisreglur um inntak þess réttar sem almenningur og aðrir eiga um aðgang að skjölum í opinberum skjalasöfnum. Skýrari skilgreiningar eru á hverjir eru afhendingarskyldir aðilar og hverjar eru skyldur þeirra er varða skjalavörslu og skjalastjórn. Þá er jafnframt fjallað um söfnun og varðveislu einkaskjalasafna í lögunum. Refsiheimildir vegna brota á lögum um opinber skjalasöfn eru jafnframt nýmæli, s.s. er varðar þagnarskyldu og brot forstöðumanna stofnana á lögunum.

Nýju lögin má nálgast á vef Alþingis hér.

Nánar er fjallað um lögin á vef Þjóðskjalasafns Íslands hér.

Skjalaskrá Þjóðskjalasafns Íslands

Í Þjóðskjalasafni Íslands eru varðveittir um það bil 42 hillukílómetrar af pappírsskjölum og eru þar að finna skjalasöfn opinberra stofnana og fyrirtækja og ýmis einkaskjalasöfn, hvort sem það eru söfn einstaklinga, félaga eða fyrirtækja í einkaeigu.

Skjalasöfn eru skráð og gerð aðgengileg skv. ákveðnum aðferðum og reglum. Á vef Þjóðskjalasafns er hægt að leita í skjalaskrám þeirra safna sem eru orðin aðgengileg almenningi. Afhendingarskyldir aðilar eru skyldugir að ganga frá skjölum sínum og skrá áður en til afhendingar kemur. Því eru skjalaskrár nýrra afhendinga birtar á vefnum fljótlega eftir afhendingu. Unnið er að því að koma eldri skjalaskrám á vefinn.
 
Skjalaskrár Þjóðskjalasafns má nálgast hér.

 

Hugtakið

Geymsluskrá

Geymsluskrá, einnig nefnt skjalaskrá, er skrá yfir allt skjalasafn viðkomandi skjalamyndara sem komið hefur verið fyrir í skjalageymslu og varðveitt er á pappír. Geymsluskrá er gerð eftir leiðbeiningum Þjóðskjalasafns Íslands samkvæmt upprunareglu.

Hér má finna góðar ábendingar varðandi frágang geymsluskráa.
Rétthafi © 2014 Þjóðskjalasafn Íslands.
Öll réttindi áskilin.
Email Marketing Powered by Mailchimp
Þjóðskjalasafn Íslands | Laugavegi 162 | 105 Reykjavík | 590 3300 | www.skjalasafn.is