Copy
Skjalafréttir frá Þjóðskjalasafni Íslands.

Skjalafréttir Þjóðskjalasafns

27. febrúar 2014 | 3. tbl.


Mikilvægi þess að nota bókbandslím á merkimiða

Í síðustu Skjalafréttum voru  afhendingarskyldir aðilar minntir á þær kröfur sem Þjóðskjalasafn Íslands gerir um notkun á réttum umbúðum þegar afhenda á pappírsskjalasöfn til safnsins. Við höldum áfram hér að minna á hvað það er mikilvægt að vanda sig við frágang skjalasafna og notkun réttra verkfæra við fráganginn. Á myndinni að neðan hefur verið notað lím sem stenst ekki kröfur Þjóðskjalasafnsins.
Í 3. gr. reglna nr. 1065/2010 um frágang, skráningu og afhendingu pappírsskjalasafna afhendingaskyldra aðila segir, „Merkimiða skal líma á öskjur með lími sem Þjóðskjalasafn Íslands eða viðkomandi héraðsskjalasafn mælir með.“ Lím sem Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn mæla með er svokallað bókbandslím. Þjóðskjalasafn Íslands mælir með líminu Planatol BB og skal notast við góðan pappír þegar merkimiðarnir eru úbúnir, því þeir eiga að endast í langan tíma. Ekki má nota sjálflímandi merkimiða þar sem þeir detta fljótt af. Á næstu mynd sést muninn á merkimiðum sem hafa verið settir á öskjur eftir kröfum Þjóðskjalasafns og miðum þar sem notast hefur verið við annarskonar lím en bókbandslím.


 

Námskeið á vorönn 2014

Við ætlum að nýta tækifærið og minna á námskeiðin sem Þjóðskjalasafn Íslands býður upp á fyrir starfsfólk í skjalavörslu opinberra aðila. Nú þegar hafa tvö námskeið verið haldin, um grisjun annars vegar og frágang og skráningu pappírsskjalasafna hins vegar. Bæði námskeiðin gengu vel og þátttakendur ánægðir. Námskeið um gerð málalykla þurfti að fella niður vegna dræmrar þátttöku en boðið verður upp á það að nýju í haust.
 
Fjögur námskeið eru eftir á vorönninni og verður næsta námskeið, Rafræn skjalavarsla: Skipulag og varðveisla rafrænna gagna, haldið þann 4. mars næstkomandi. Yfirlit yfir þau námskeið sem eru í boði má finna á vef Þjóðskjalasafns Íslands með því að smella á hlekkinn: Námskeið ÞÍ. Einnig er hægt að skrá sig með því að smella á þennan hlekk: Skráning á námskeið.


Hugtakið
Ábyrgðarmaður skjalasafns

Ábyrgðarmaður skjalavörslu hjá opinberum aðilum er forstöðumaður, skv. 6. gr. laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands. Forstöðumaður ber alla ábyrgð á að skjalavarsla síns embættis (stofnunar) uppfylli ákvæði laga og reglugerða og lúti kröfum og reglum Þjóðskjalasafns Íslands um skjalavörslu. Forstöðumaður getur falið öðrum starfsmanni umsjón skjalasafnsins.
 
Rétthafi © 2014 Þjóðskjalasafn Íslands.
Öll réttindi áskilin.
Email Marketing Powered by Mailchimp
Þjóðskjalasafn Íslands | Laugavegi 162 | 105 Reykjavík | 590 3300 | www.skjalasafn.is