Copy
Skjalafréttir Þjóðskjalasafns Íslands
Skoða Skjalafréttir í vafra
6. tbl. 3. september 2015

Námskeið Þjóðskjalasafns Íslands haustið 2015

Þjóðskjalasafn Íslands mun eins og undanfarin ár standa fyrir námskeiðum um skjalavörslu afhendingarskyldra aðila en þó með örlítið breyttu sniði að þessu sinni. Námskeið hausmisseris hafa nú verið auglýst á vef safnsins. Í desember verður árangur námskeiða haustsins metin og sú niðurstaða höfð til hliðsjónar við ákvörðun um námskeið vormisseris sem verða auglýst fyrir áramótin.
 
Helstu breytingar eru eftirfarandi:
Tvö af námskeiðum safnsins um rafræna skjalavörslu falla niður á haustmisseri en verða auglýst síðar ef tilefni þykir til og eftir endurskoðun þeirra. Þetta eru námskeiðin Afhending rafrænna gagna: Gerð vörsluútgáfna og Pappírslaus skjalavarsla: Tilkynning og samþykkt rafrænna gagnakerfa.
 
Námskeið um átak í skjalavörslu, skjalavistunaráætlun og grisjun renna saman í eitt námskeið. Námskeiðið verður á fyrirlestrarformi þar sem farið verður yfir það hvernig stofnun getur farið í átak í skjalavörslu sinni, tekið á fortíðarvanda sínum og komið skjalavörslunni í gott horf til framtíðar, fyllt inn ákvarðanir varðandi skjalavörsluna í skjalavistunaráætlun og hvað þarf að hafa í huga þegar áætlað er að grisja úr skjalasafni stofnunarinnar.


Fræðsla um málalykla verður að þessu sinni í formi svokallaðs spjallborðs. Í spjallborðinu verður rætt um helstu atriði sem snúa að reglum um málalykla afhendingarskylda aðila og gerð þeirra. Þátttakendur þurfa að kynna sér reglur, leiðbeiningar og talglærur fyrir spjallborðið. Á spjallborði mætast allir þátttakendur á jafnréttisgrundvelli og ræða um viðfangsefnið.
 
Að lokum verður haldið námskeið um frágang og skráningu pappírsskjalasafn með hefðbundnu sniði eins og síðastliðin ár. Námskeiðið verður blanda af fyrirlestri og sýnikennslu á helstu atriðunum sem þarf að hafa í huga þegar ganga á frá skjalasafni og skrá það í geymsluskrá.

Hægt er að skrá sig á námskeið hér ásamt aukaupplýsingum um námskeiðin og verð: Námskeið Þjóðskjalasafns Íslands haustið 2015
 
Námskeiðin verða haldin á eftirfarandi dagsetningum:
Námskeið: Kennarar: Dagsetning og tími.
Málalyklar, spjallborð um flokkunarkerfi fyrir málasafn Njörður Sigurðsson 6. október 2015 9 til 11.
Átak í skjalavörslu, skjalavistunaráætlun og grisjun Árni Jóhannsson og Kristjana Kristinsdóttir 13. október 2015. Kl. 9 til 12.
Frágangur, skráning og afhending pappírsskjalasafna. Helga Jóna Eiríksdóttir og Karen Sigurkarlsdóttir 20. október 2015. Kl. 9 til 12:30.
Rafræn skjalavarsla. Skipulag og varðveisla rafrænna gagna S. Andrea Ásgeirsdóttir og Garðar Kristinsson 24. nóvember 2015. Kl. 9 til 11:30.

Samþykki skjalavistunaráætlana

Nýjar reglur sem Þjóðskjalasafn Íslands hefur sett varðandi ýmsa hluta skjalavörslu afhendingarskyldra aðila tóku gildi í júlí síðastliðnum. Þar á meðal voru nýjar reglur um skjalavistunaráætlanir afhendingarskyldra aðila nr. 571/2015 og er helsta breytingin frá eldri reglum, sem Þjóðskjalasafn Íslands setti árið 2010, að nú þurfa afhendingarskyldir aðilar að fá skjalavistunaráætlun sína samþykkta af því opinbera skjalasafni sem viðkomandi er afhendingarskyldur til í upphafi skjalavörslutímabils.
 
Í þriðju grein ofangreindra reglna er kveðið á um: „Skjalavistunaráætlanir skulu samþykktar af opinberu skjalasafni sem viðkomandi aðili er afhendingarskyldur til við upphaf hvers nýs skjalavörslutímabils. Skjalavistunaráætlanir skulu vera á sérstöku eyðublaði. Með eyðublaðinu skal jafnframt fylgja eftir því sem við á:
  • Málalykill ásamt formála.
  • Grisjunarheimild.
  • Geymsluskrá.
  • Vinnuleiðbeiningar með skjalasafni.
  • Tilkynning á rafrænu kerfi.“
 
Eyðublaðið sem um ræðir í greininni er skjalavistunaráætlunin sjálf sem finna má hér: http://skjalasafn.is/eydublod. Með eyðublaðinu og fylgiskjölum skal fylgja undirritað bréf frá forstöðumanni afhendingarskylds aðila þar sem óskað er eftir samþykki á skjalavistunaráætluninni og upplýsingar um tengilið sem hægt er að hafa samband við ef einhverjar athugasemdir vakna sem þarf að bregðast við af hálfu viðkomandi aðila.
 

Hugtakið: Skjalamyndari

Skjalamyndari er hver sá aðili er myndar sitt eigið skjalasafn. Skjalamyndari getur því verið einstaklingur, fyrirtæki, félag, samtök eða opinber stofnun.
Vertu vinur okkar á Facebook
Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns
Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2015 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.


Hætta í áskrift    Uppfæra upplýsingar um áskrift 

Email Marketing Powered by Mailchimp