Copy

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá síðasta fréttabréfi. Við tókum saman það helsta frá síðustu vikum, ásamt yfirferð yfir það sem er á döfinni.
 

Bitcoin rýfur $10.000 múrinn

Magnþrungna mótstaðan í kringum fimm tölustafa múrinn hefur nú verið brotin. Bitcoin klifraði síðast yfir 10.000 Bandaríkjadali í febrúar, rétt áður en COVID-19 fór að herja á Evrópu af fullum krafti með þeim afleiðingum að flestir markaðir hrundu. Áður hafði Bitcoin rofið múrinn í október á síðasta ári eftir að forseti Kína, Xi Jinping, sagði að landið ætti að grípa tækifærið sem bálkakeðjur bæru með sér.

Af hverju er 10.000 Bandaríkjadala markið svona merkilegt? Fyrstu árin í sögu Bitcoin var það draumur bjartsýnustu manna að það myndi einhverntíman ná slíkum hæðum. Í dag er orðinn til sjálfstæður eignaflokkur, sem ekki var gefinn út af neinum miðlægum aðila sem lifir á veraldarvefnum og er 23.940 milljarða króna virði.

Bitcoin hefur aukið virði sitt jafnt og þétt en þó þráast ennþá einhverjir við og kalla það bólu. Eignabólur eiga það allar sameiginlegt að hafa tekið út mikla hækkun og á endanum orðið að engu. Bitcoin hefur í gegnum árin tekið út 5 stórar bylgjur með mikilli hækkun og síðan lækkun í kjölfarið en ljóst er að sjötta bylgjan sé nú farin af stað.

Ísland slær niður fyrstu bylgju Covid-19

Lífið á Íslandi er sem betur fer farið að taka á sig kunnulega mynd eftir að fyrsta bylgjan Covid-19 var slegin niður. Fólk er mætt til vinnu og farið að hitta sína nánustu sem er kærkomin tenging eftir þessa erfiðu tíma. Íslendingar eru heppnir að búa á eyju sem er auðvelt að loka af og verja gegn óværum en því miður er staðan ekki sú sama í nágrannalöndum okkar. Hugur okkar liggur hjá þeim löndum sem berjast við að ná tökum á fullum þunga veirunnar og þeirra afleiðinga sem hún ber með sér.

Viðburðir hefjast að nýju

Við erum að stilla upp viðburðum fyrir næstu vikur og mánuði. Það væri gaman að heyra frá þér hvaða viðburði þú værir helst til í að sjá!

Skýrsla um kortlagningu fjártækni á Íslandi

Skýrslan um fjártækni kom út á fyrsta ársfjórðingi og fór yfir tækifærin í geiranum fyrir Ísland. Þar ber helst að nefna yfirferð yfir starfsemi Monerium sem er fyrirtæki sem að gefur út rafeyri á bálkakeðjum. Kristján Ingi Mikaelsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs, var einnig til viðtals þar sem hann taldi upp nokkra af þeim styrkleikum sem Ísland býr yfir.

Monerium fær styrk frá Rannís

Í byrjun maí hlaut Monerium styrk frá Rannís til frekari þróunar og sókn á nýja markaði. Rafmyntaráð færði fyrst fregnir af þessum mikilvæga áfanga í bloggfærslu um málið.

Hlaðvarp Rafmyntaráðs eins árs

Fyrsti þáttur hlaðvarpsins fór í loftið 4. júní 2019 en til þessa hafa 29 þættir verið gefnir út. Alveg frá byrjun var meginmarkmiðið að auka fræðsluefni á íslensku um rafmyntir og bálkakeðjur. Við höfum hinsvegar tekið upp fjöldan allan af viðtölum með fólki sem stendur utan við geirann til að fá innsýn inn í heim hagfræðinnar og þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað. Þá er einnig tilefni til að þakka fyrir frábærar viðtökur, en stefnan er sett á að halda ótrauð áfram eftir sumarið. Við munum gefa út afmælisþátt á næstunni áður en við keyrum þættina aftur í gang eftir sumarið.

 

Copyright © 2020 Rafmyntaráð Íslands, All rights reserved.


Want to change how you receive these emails?
You can update your preferences or unsubscribe from this list.