Copy
Margt er að gerast um þessar mundir í heimi rafmynta og virðist vera kominn taktfastur skriður á verðþróun Bitcoin. Mikilvægt er að hafa í huga hvað það táknar, en aukinn óstöðugleiki í hagkerfum til lengri tíma getur haldið áfram að opna augu margra fyrir kostum Bitcoin sem geymsluverðmæti.
 

Nýr formaður stjórnar og gjaldkeri

Eins og við sögðum frá í síðasta fréttabréfi þá var ný stjórn Rafmyntaráðs kjörin á aðalfundi í lok september. Stjórnin kom nýlega saman á fyrsta stjórnarfundi sínum og skipti með sér verkum. Erna Sigurðardóttir tekur við störfum stjórnarformanns af honum Hlyni Þór Björnssyni. Kjartan Ragnars tekur sæti gjaldkera og tekur hann við stöðu Einars Alexanders Eymundssonar. Hægt er að lesa meira um stjórnina í samantekt Viðskiptablaðsins.

Félagar í Rafmyntaráði þakka þeim báðum fyrir sín trúnaðarstörf í þágu félagsins, ásamt fráfarandi stjórnarmönnum.


Stjórn Rafmyntaráðs ásamt framkvæmdastjóra
 

Bitcoin í sögulegum hæðum

Að kaupa heilt Bitcoin í dag eru öfundsverð forréttindi þar sem stykkið kostar nú um 2,5 milljónir króna. Fyrr í mánuðinum sendi Rafmyntaráð frá sér grein um að Bitcoin hefði náð hæsta verðgildi sínu í íslenskum krónum sem mætti óvænt þónokkurri mótstöðu.

Ljóst er að hækkunarfasi Bitcoin er orðinn taktfastur og er nú einungis 10% frá hæsta mælda verðgildi sínu í Bandaríkjadölum en þegar þessi póstur er skrifaður er verðið á Bitcoin $18.250. Margt spilar þarna inn í eins og nýlegar fréttir af Paypal sem heimilar innri viðskipti með Bitcoin innan síns nets, stórfyrirtæki sem skráð eru á markað eru að binda lausafjármuni í Bitcoin í stað þess að horfa upp á rýrnun með bindingu í þjóðargjaldmiðlum og versnandi horfur í hagkerfinu halda áfram að ýta undir væntingar fólks gagnvart Bitcoin.

Vert er að geta að breytt samsetning í námuvinnslu er einnig að draga úr sölu þeirra sem námuvinna Bitcoin umfram þá helmingun sem átti sér stað í maí. Mikið af þeirri fjármögnun á búnaði sem hefur átt sér stað hefur verið gerð með því að selja Bitcoin strax og binda framtíðar framleiðslu sem fyrirgreiðslu inn á lán. Því er söluþrýstingurinn frá námuvinnslustarfseminni að ná sögulegum lægðum næstu mánuði.

Við rákum augun í eftirfarandi setningu úr júlí fréttabréfi Rafmyntaráðs sem tók meistaralega (í baksýnisspeglinum) utan um stöðu mála:
Margar af þeim hættum sem áhugafólk um Bitcoin hefur haldið á lofti eru nú farnar að heyrast nánast daglega frá virtustu greinendum og áhrifavöldum í hagkerfinu: Verðbólgudraugurinn er að vakna, skuldasöfnun þjóða er óhófleg og Bandaríkjadalurinn er í raunverulegri hættu að tapa stöðu sinni.


Upplifðu námuvinnsluna á Íslandi í þrívídd

Nýlega fór af stað metnaðarfyllsta sýningin sem tekin hefur verið saman um námuvinnslustarfsemina á Íslandi. Sýningin bar heitið „Alchemical Infrastructures: Making Blockchain in Iceland“ og kom teymi frá Pensylvaníu í Bandaríkjunum hingað til lands í nokkrar vikur til að skrásetja sögu geirans. Úr þessu varð stórbrotin sýning sem sett var upp ytra, en nú hefur hún einning verið gerð aðgengileg á netinu, og er hægt að upplifa hana í þrívídd.

Við mælum eindregið með því að upplifa og skoða sýninguna á meðan hún er aðgengileg.


Zane Cooper, höfundur sýningarinnar
 

Námskeið hjá Endurmenntun HÍ

Í síðustu viku fór fram námskeið um rafmyntir og bálkakeðjur í Endurmenntun Háskóla Íslands. Námskeiðið gekk vonum framar og var vel sótt.  Stefnt er að því að halda sambærilegt námskeið í febrúar á næsta ári. Það sem var áberandi var aukin breidd þeirra sem sóttu námskeiðið og er það þróun sem við höfum einnig séð hjá okkur í Rafmyntaráði. Rafmyntir og bálkakeðjur virðast því vera að ná til breiðari hóps fólks.

Endilega hafðu samband ef þú hefur áhuga á að læra meira um Rafmyntir á námskeiði. Hægt er að sjá lýsingu námskeiðsins á síðu Endurmenntunar.
 

Næstu vikur og mánuðir

Eins og fram hefur komið eru spennandi tímar í geiranum framundan á nýju ári. Verðþróunin keyrir upp vonir og væntingar þeirra sem starfa innan geirans og frumkvöðlar og uppfinningafólk er líklegra til að kynna lausnirnar sem það hefur þróað bakvið tjöldin undanfarin ár.

Rafmyntaráð flytur höfuðstöðvar sínar í Grósku í Vatnsmýri í desember. Við vonumst til að geta haldið viðburði sem fyrst til að halda áfram að vera leiðandi afl í kynningu á rafmyntum og bálkakeðjum á Íslandi. Þangað til er kjörið tækifæri að kíkja á heimasíðu Rafmyntaráðs, Wiki síðuna eða á opna fyrirlestraseríu Háskóla Íslands um rafmyntir sem er haldin alla miðvikudaga klukkan 15:00.
 
Copyright © 2020 Rafmyntaráð Íslands, All rights reserved.


Want to change how you receive these emails?
You can update your preferences or unsubscribe from this list.