Copy

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá síðasta fréttabréfi. Við tókum saman það helsta frá síðustu vikum, ásamt yfirferð yfir það sem er á döfinni.
 

Námskeið um rafmyntir í samstarfi við Háskóla Ísland

Rafmyntaráð í samstarfi við Háskóla Íslands hefur sett saman hálfs dags námskeið sem fer fram þann 12. nóvember fyrir einstaklinga sem vilja fræðast meira um málefni rafmynta á einfaldan hátt. Takmarkað sætaframboð er á námskeiðið. Nánar á vef Endurmenntunar Háskóla Íslands.

Bitcoin snertir $11.400 í 14% dagsveiflu

Fyrr í vikunni snerti Bitcoin 11.400 Bandaríkjadala múrinn í 14% dagsveiflu. Þessi tímamót eru ekki síðri en þau sem við ræddum í síðasta fréttabréfi þegar rafmyntin rauf 10.000 Bandaríkjadala múrinn. Nú eru rúmlega tveir mánuðir frá helminguninni og áhrif minni söluþrýstings vegna nýmyndunar er farið að gæta.

Það er mikill meðbyr með Bitcoin um þessar mundir og aðstæðurnar í hagkerfinu gerir framgöngu rafmyntarinnar mun auðveldari. Margar af þeim hættum sem áhugafólk um Bitcoin hefur haldið á lofti eru nú farnar að heyrast nánast daglega frá virtustu greinendum og áhrifavöldum í hagkerfinu: Verðbólgudraugurinn er að vakna, skuldasöfnun þjóða er óhófleg og Bandaríkjadalurinn er í raunverulegri hættu að tapa stöðu sinni.

Verðbólga
Verðbólgan er aftur komin í umræðuna í ljósi gífurlegrar peningaprentunar sem er að eiga sér stað. Í því ástandi er vinsælt að losa sig við þjóðargjaldmiðla en þá leita peningar í auknum mæli í eignarflokka sem halda verðgildi sínu, með þeim afleiðingum að þeir þenjast út. Við höfum séð skýrt dæmi um þetta í hlutabréfamarkaðnum, en nú er farið að bera á því að verðbólgudraugirnn sé farinn að leita neðar í raunhagkerfið.

Skuldasöfnun
Þjóðir keppast nú réttilega við að bjarga því sem bjarga verður út af áhrifum veirunnar á hagkerfið. Þessar aðgerðir eru ekki ókeypis og þurfa þjóðir heimsins að slá lán til að eiga fyrir aðgerðunum. Seðlabankar bjóðast svo til að fjármagna þessar skuldir með peningum sem eru úr lausu lofti gripnir (peningaprentun). Þessum skuldum verður í framhaldinu rúllað áfram á komandi kynslóðir, þegar löngu er orðið ljóst að það hægist á fólksfjölgun og aðrar þjóðfélagsbreytingar munu draga úr getu landa til að borga skuldir til lengri tíma. Þetta er sorgleg þróun í ljósi þess að mörg ríki gátu ekki lækkað skuldastöðuna sína á síðustu árum, sem reyndist vera einn öflugasta uppsveifla í sögunni.

Hverfandi máttur Bandaríkjadals
Staða þjóðargjaldmiðla versnar hratt og gekk Goldman Sachs svo langt í fyrradag að vara við því að áframhaldandi peningaprentun sé raunveruleg ógn við stöðu Bandaríkjadals sem alþjóðlegarar uppgjörsmyntar. Það er langt í að við munum halda því fram að Bitcoin geti fyllt í það stóra skarð, en þetta sýnir fram á að það peningakerfi sem við búum við í dag er ekki jafn stöðugt og ætla mætti.

Fyrir þau ykkar sem viljið skilja þetta samspil betur, þá getum við hiklaust mælt með bókinni This Book Will Save You Time eftir Misir Mahmudov. Bókin er bæði einföld og kjörnuð og fer sem fer yfir samspil tíma, verðmæta og peninga. Rafmyntaráð fékk nokkur prentuð eintök sem hægt er að nálgast á skrifstofu samtakanna. Fyrir lengra komna er hægt að horfa á viðtal við Ray Dalio sem birtist fyrr í mánuðinum á Bloomberg News.

Bálkar Miðlun fær skráningu hjá Fjármálaeftirlitinu

Stór tíðindi bárust í mánuðinum þegar nýtt fyrirtæki, Bálkar Miðlun, fékk starfsleyfi hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem þjónustuveitandi viðskipta milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla. Hér bætist því við fjórða rafmyntafyrirtækið sem fær slíkt leyfi á Íslandi. Bálkar Miðlun stefnir að því að að veita alhliða persónulega miðlunarþjónustu fyrir rafmyntir þar sem hægt er að hringja og fá ráðgjöf hjá sérfræðingi um viðskipti með rafmyntir, vörslu, eigna- og áhættustýringu.

Stofnandi Bálka Miðlunar, Hlynur Þór Björnsson, hefur undanfarin fimmtán ár starfað við eigna- og áhættustýringu íslenskra banka og fjármálafyrirtækja. Hann hefur einning verið virkur í frumkvöðla- og sprotastarfsemi og er einn stofnenda Rafmyntaráðs og skiptimarkaðarins ISX. Einnig má geta þess að Hlynur er sitjandi stjórnarformaður Rafmyntaráðs.

Fyrir þau ykkar sem vilja kynna sér starfsemi Bálka Miðlunar er hægt að benda á heimasíðu fyrirtækisins  https://balkar.is.

Sprenging í dreifðri fjármálaþjónustu (DeFi)

Af öllum þeim bylgjum sem áttu sér stað í mánuðinum þá ber hæst að nefna dreifða fjármálaþjónustu. Í mánuðinum fjórfaldaðist upphæðin sem geymd er í þessum fjármálalausnum úr einum milljarði Bandaríkjadala í tæplega fjóra.

Dreifðum fjármálaþjónustum er ætlað að leysa af hólmi flestar þær miðlægu fjármálaþjónustur sem við nýtum okkur dags daglega í okkar lífi. Þessar lausnir vinna ofan á bálkakeðjum á sjálfvirkan hátt þar sem ekki þarf að eiga við flókin ferli eins og oft um ræðir í hefðbundnum viðskiptum, heldur eru færslur gerðar með fyrirfram skilgreindum snjallsamningum. Allar þessar færslur eru framkvæmdar án milliliða.

Tökum tvö dæmi sem eru farin að ryðja sér til rúms:
* Í stað þess að leggja peninginn inn í banka til að fá brot af útlánum bankans í formi vaxta er hann lagður inn í sameiginlegn lánasjóð. Hver sem er getur svo tekið lán úr þessum sjóði.
* Sjálfvirkar kauphallir sem skipta á tveimur verðmætum eins og t.d rafmynta

Við mælum með því að þú kynnir þér dreifðar fjármálaþjónustur í grein frá Coinbase, þar sem líklegt er að þetta sé einungis byrjunin á stærri bylgju.

Copyright © 2020 Rafmyntaráð Íslands, All rights reserved.


Want to change how you receive these emails?
You can update your preferences or unsubscribe from this list.