Copy

Hér kemur víðlesna

 

S K R U D D A N


Helstu tíðindi úr FVA 12. maí 2020

Brautskráning 29. maí

https://i5.walmartimages.com/asr/74e52040-3ce5-4e7e-bbbd-f24659892faa_1.d8ad42e4f008b1de945968dfa4f7f96e.jpeg?odnHeight=2000&odnWidth=2000&odnBg=ffffffNú er nokkuð ljóst að eftir 25. maí verður fjöldi þeirra sem mega koma saman meiri en 100 en við höfum fylgst grannt með fréttum um þetta af því að útskriftarnemar eru rúmlega 60.

Mögulega verður 2ja metra reglan sem hefur verið í gildi frá 16. mars ekki ófrávíkjanleg heldur viðhöfð eftir fremsta megni sem hluti af einstaklingssmitvörnum.

Brautskráning frá FVA er því skv. skóladagatali, föstudaginn 29. maí kl 14. Ekki reyndist unnt að færa brautskráninguna til 5. júní eins og var í skoðun um tíma þar sem þá eru sveinspróf haldin fyrir allt landið og nokkrir útskriftarnemar þreyta þau þennan dag.

Eftir 25. maí mun koma í ljós hvort gestir fá að koma til athafnarinnar en við fylgjum fyrirmælum stjórnvalda þar að lútandi. Nánar verður upplýst um það á vef FVA þegar ákvörðun liggur fyrir.

Athöfnin er opinber viðburður sem verður streymt í rauntíma á slóð sem verður send til útskriftarnema, kennara og starfsfólks skólans. Endanleg dagskrá verður birt á vef FVA þegar nær dregur. Við þetta tækifæri er tekin hópmynd að venju en hún verður með nýju og óvenjulegu sniði til að forðast smit og of mikla nánd. 

Við munum gera þennan dag eins hátíðlegan og mögulegt er miðað við aðstæður og hlökkum verulega til.

Könnun í covid19

Í samkomubanni, dagana 3. apríl  til 4. maí 2020, var lögð fyrir stutt könnun í gegnum INNU fyrir nemendur í dagskóla FVA. Alls voru 368 beðnir um að svara 6 spurningum. Af þeim svöruðu 245 könnuninni sem er um 67% þátttaka. Svörin eru að sjálfsögðu ópersónugreinanleg.
 
Könnunin sneri að mati nemenda á fjarkennslu. Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um hvernig við getum bætt þjónustu við nemendur. 

Spurt var m.a. hversu vel eða illa nemendum hefur gengið að aðlagast breyttu námsfyrirkomulagi síðustu vikur. 45% nemenda taldi að þeim gengi vel, 28% hvorki vel né illa.

Við höfum mikinn áhuga á að vita hversu mikið álag nemendur upplifa í náminu meðan á samkomubanni stendur. Ljóst er af niðurstöðunum að álagið er mikið enda ekkert auðvelt að demba sér út í nýjar aðstæður fyrirvaralítið. Hér má sjá myndræna niðurstöðu þessarar spurningar:

Hversu mikið eða lítið álag hefur þú upplifað í náminu síðustu vikur?
 


Loks fengu nemendur að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum og nýttu margir það tækifæri, bæði til að þakka fyrir sig og segja okkur til syndanna. Við viljum koma á framfæri þökkum til ykkar, kæru nemendur, fyrir þátttökuna. Ykkar álit skiptir okkur öllu.

Farið verður vandlega yfir niðurstöður könnunarinnar á kennarafundi, sem fyrirhugaður er 26. maí kl 15.

Myndlistarsýning

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður í myndlistarnámi vegna samkomubanns hafa nemendur FVA unnið að list sinni heima eins og hægt er undir leiðsögn kennara í Teams. Kannski tókst ekki að klára alveg en verkin verða sýnd eins og þau koma undan covid. Vel gert!Öllu starfsfólki FVA er boðið á myndlistarsýningu nemenda í Leirbakaríinu! Sýningin er opnuð fimmtudaginn 14. maí kl 15.30 og opið er til kl 18. Sýningin er opin föstudaginn 15. maí frá kl 15-18, 11-15  á laugardaginn og loks 13-15 á sunnudag.

Best er að ekki fari allir á sama tíma vegna smithættu, samstillum úrin!

Próf standa sem hæst

Það gengur á ýmsu í rafrænum prófum að lokinni margra vikna heimakennslu. Inna frýs, forrit spóla, amma deyr, hundur étur ritgerð... allt eins og áður og allt getur gerst. Nemendur eru ýmsu vanir og sýna mikinn skilning á aðstæðum, tölvuhjálpin er skjótari en skugginn að skjóta og kennarar standa sem fyrr í framlínu og leysa öll mál sem upp koma af ráðsnilli og dug. Takk allir!

Munið að bókasafn FVA er opið skv. samkomulagi og hægt að hafa samband beint við Björgu í síma 8992331 eða hafa samband í tölvupósti/Teams á bjorgb@fva.is.

Síðasti prófdagur er 19. maí og boðið er upp á prófsýningu í Teams 22. maí, skv. nánari upplýsingum þegar nær dregur.

Þróun og þrep


Minnt er á grein 5.2. í stofnanasamningi FVA:

5.2. Tímabundin verkefni
Fyrir verkefni á borð við skólaþróun, þróunarverkefni, leiðsagnarmat, menntabúðir, lýðræðislega kennsluhætti og starfendarannsóknir, á grundvelli áætlunar sem gerð er í samráði við skólameistara, fæst tímabundið þrep í eina önn í senn fyrir hvert verkefni.
Umsóknir um slík verkefni skulu berast skólameistara þremur mánuðum áður en ný önn hefst, í fyrsta skipti fyrir 1. maí vegna haustannar 2020.


Frestur til að sækja um þetta er framlengdur til 1. júní að þessu sinni.

Ný stjórn NFFA

Þann 6. maí sl. var aðalfundur NFFA haldinn. Eins og annað í skólastarfinu um þessar mundir var fundurinn með óvenjulegu sniði þar sem honum var streymt á netinu. Á fundinum gerðu þeir Björgvin Þór Þórarinsson, fráfarandi forseti, og Maron Snær Harðarson, fráfarandi gjaldkeri, grein fyrir störfum félagsins á liðnu starfsári og fóru yfir ársreikning félagsins.

Á fundinum var nýkjörin stjórn NFFA kynnt til sögunnar, en stjórnarkjör fór fram í Innu að þessu sinni. Nýr forseti NFFA er Gylfi Karlsson og með honum í stjórn verða þau Gunnar Davíð Einarsson, Karl Ívar Alfreðsson, Katrín María Óskarsdóttir og Ísak Örn Elvarsson. 

Á næsta skólaári verða forsetar klúbba þau Guðrún Karitas Guðmundsdóttir fyrir GEY, Sigríður Sól Þórarinsdóttir og Sólbjört Lilja Hákonardóttir fyrir Melló, Kristján Steinn Matthíasson fyrir Tónlistarklúbb og Karl Ívar Alfreðsson fyrir Viskuklúbb.

Fráfarandi stjórn fær bestu þakkir fyrir að standa keik í covid og þrauka - ný stjórn NFFA er boðin hjartanlega velkomin til starfa.

Innra mat, kennslukönnunNú liggja fyrir niðurstöður úr kennslukönnun sem framkvæmd er á hverri önn. Könnunin er hluti af innra mati skólans og á að stuðla að sem bestu skólastarfi. Í framhaldi  af könnuninni taka skólameistari og aðstoðarskólameistari  formleg viðtöl við þá kennara sem voru í úrtakinu nú um niðurstöðurnar. Vðtölin fara fram í Teams föstudaginn 22. maí nk. skv. nánari tilmælum í tölvupósti til viðkomandi kennara.

Bein leið til fjár og frama

Laust er til umsóknar starf deildarstjóra í sögu, samfélagsgreinum og lífsleikni frá 1. ágúst 2020 - 31. júlí 2022.

Laust er til umsóknar starf áfangastjóra FVA frá 1. ágúst 2020-31. júlí 2024. 

Starfslýsingu og launakjör fyrir þessi störf er að finna í stofnanasamningi FVA

Umsóknir berist skólameistara í tölvupósti. Umsóknarfrestur er til og með 22. maí.


https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2020
Ábm: Skólameistari FVAThis email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland