Copy

Hér kemur einmana

 

S K R U D D A N


Helstu tíðindi úr FVA 24.3.2020

Tómlegt um að litast

Fáir eru á ferli í skólanum okkar þessa dagana. Langir, tómir gangar, eyðilegar kennslustofur, mannlaust mötuneyti og heimavist. Kennarar hamast við að kenna úr fjarlægð og nemendur þurfa að hafa sig alla við til að halda í við þá. Allir leggja sig fram eftir bestu getu, við látum ekki bannið buga okkur.

Á skrifstofum skólans er einmanalegt, stjórnendum og öðru starfsfólki er skipt í lið sem vinnur heima eða í FVA. Hjúkrunarfræðingur hefur aðstöðu í húsnæðinu (gengið inn Vallholtsmegin) til að létta undir með Heilsugæslu Vesturlands. 

Á vef skólans er dagbókin okkar uppfærð á hverjum degi. Fylgist með!

Val áfanga á haustönn

Nemendur hafa flestir gengið fá valinu sínu fyrir haustönn og fá stundatöflu í ágúst skv. því. Hægt er að hafa samband við áfangastjóra eða námsráðgjafa ef spurningar vakna varðandi valið. Fjölmargir áhugaverðir áfangar eru í boði hjá okkur á haustönn 2020, m.a. nýtt myndlistarsvið og ný vélvirkjabraut.

Vinna að heiman

Kennarar FVA leggjast á eitt um að halda uppi námi og kennslu í skólanum í samkomubanni og hafa lagt heimili sín undir vinnustöðvar eins og fleiri sem vinna heima þessa dagana. Nemendur reyna að halda rútínu og fóta sig í nýju námsumhverfi. Ýmsar hindranir hafa sannarlega verið í veginum, tölvan hefur frosið, nemendur ekki náð tengingu, Teams flækst fyrir, app ekki búið yfir nægilegum möguleikum og svo mætti lengi telja. En við ætlum að sigrast á öllum hindrunum!

Mikið mæddi á tölvuaðstoðinni okkar, hjalp@fva.is í vikunni sem leið en síðustu dagana var allt farið að ganga miklu betur. Það er enn of snemmt að segja nokkuð til um hvaða áhrif skólalokunin hefur í heild á námsframvindu og brautskráningu nemenda okkar. Á fundi með menntamálaráðherra á gærmorgun var upplýst að verið er að skoða þau mál vandlega í ráðuneytinu.

Menntabúðir, hvað er það?

Athygli er vakin á menntabúðum á netinu fimmtudaginn 26. mars kl. 15.00-16.30 

Þátttaka er öllum opin án skráningar. Hér er hægt að opna dagskrána 26.3. og velja sér vefstofu að vild. Þátttakendur geta tekið þátt í allri dagskránni eða hluta hennar.

Menntabúðirnar fara fram með Zoom fjarfundabúnaði (Zoom-leiðbeiningar hér).

Fundir í fjarlægð

Nokkrir áhugasamir mættu á TEAMS fund um endurskoðun skólanámskrár FVA sl. miðvikudag. Niðurstaðan er sú að fjarfundur hentar ekki sérlega vel fyrir þessa vinnu! Nú er staðan þannig í skólastarfinu að rýni námskrár verður að bíða um sinn. Þó verða skólasóknar- og heimavistarreglur endurskoðaðar fyrir næstu önn.

Á morgun er TEAMS fundur með deildarstjórum.
Deildafundur sem á skipulaginu er föstudaginn 27. mars fellur niður.
Næsti kennarafundur er 3. apríl, á TEAMS.

Vottað jafnlaunakerfi 


Í síðustu Skruddu sögðum við frá því að vottun á jafnlaunakerfi FVA væri í farvatninu. Nú er hún í höfn: Jafnréttisstofa staðfesti vottun vottunarstofunnar iCert þann 19. mars sl. og veitti  FVA heimild til að nota jafnlaunamerkið! 

Til upprifjunar: Innleiðing á vottuðu jafnlaunakerfi er bundin í lög. Vottað jafnlaunakerfi er stjórnunarkerfi sem tryggir fagleg vinnubrögð við launaákvarðanir til að fyrirbyggja launamismunun vegna kyns.  

FVA er sjöundi framhaldsskólinn sem nær þessum áfanga! Húrra!

https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2020
Ábm: Skólameistari FVAThis email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland