Copy

 

Lopa-
 

S K R U D D A N


19.  janúar 2021

Höldum okkar striki
í sóttvörnum

Smit á Íslandi eru í sögulegu lágmarki og allir fagna því í FVA! En þetta er ekki búið fyrr en það er búið. Til að hindra smit og útbreiðslu veirunnar voðalegu höldum við áfram að nota grímur og þvo hendur, sótthreinsa það sem við snertum í kennslustofum, kaffistofu og mötuneyti, stoppum við sprittstöðvar og höldum öruggri fjarlægð frá öðru fólki. Meðan við öll gerum þetta getum við verið nokkuð örugg og sátt við okkar framlag til heilsuverndar í samfélaginu. En ekkert má út af bregða, verum ekki kærulaus!

Núgildandi sóttvarnarreglur gilda til 28. febrúar.

FVA gengur til góðs

Frá 15. janúar til 15. febrúar ætlum við í FVA að ganga til góðs og við setjum markið hátt. Markmið okkar er að ganga, hlaupa, hjóla og synda heila 4000 km, sem jafngildir vegalengdinni frá Akranesi til Tenerife. Þegar verkefninu lýkur kolefnisjöfnum við „flugferðir“ allra nemenda og starfsmanna FVA til Tenerife. Þannig sláum við tvær flugur í einu höggi: hreyfum okkur og höfum góð áhrif á umhverfið.

Tene-verkefnið fer vel af stað og þátttakendum fjölgar jafnt og þétt. Núna eru 87 þátttakendur búnir að skrá sig inn á Strava, í gærmorgun voru þeir 60. Fyrstu 4 dagana hafa safnast 397 km, sem er ansi gott en betur má ef duga skal! Við þurfum að ná að meðaltali 130-140 km á dag (tæplega 1000 km á viku) til að við náum 4000 km markmiðinu fyrir 15. febrúar. Við viljum fá sem flesta með en nemendur og starfsfólk skólans eru um 600. Ert ÞÚ búin/n að skrá þig? 

Allir í FVA geta tekið þátt með því að fara út að hreyfa sig – því oftar og meira, þeim mun betra – en hver km skiptir miklu máli! Öll hreyfing utandyra telur, t.d. ganga (t.d. í skólann, hlaup, sund og hjólreiðar). Búið er að stofna lið fyrir starfsfólk og nemendur í appinu Strava og með því að skrá hreyfinguna þar getum við haldið utan um vegalengdina. Hvert einasta skref telur!

Leiðbeiningar um strava-appið eru á vef skólans.

Fjöldi verðlauna meðan á verkefninu stendur!
ALLIR MEÐ
– saman getum við gert þetta með glæsibrag.

Kveðja frá Heilsueflingarteyminu hressa

Metaðsókn á námskeið


Sjö kennarar FVA eru skráðir á námskeiðið Framhaldsskólakennarinn á krossgötum - HAGNÝT VERKFÆRI NÁMS OG KENNSLU sem haldið er nú á vormisseri í samstarfi við SEF (Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara) og SMÍ (Skólameistarafélag Íslands). Markmið námskeiðsins er að efla þekkingu þátttakenda á sveigjanlegu námi og kennslu á tímum örrar þróunar upplýsingatækni, í heimsfaraldri – og ekki síst að honum loknum!

Þátttakendur kynnast hagnýtum verkfærum og öðlast færni í að leiða hópa samkennara í samtal um starfshætti, að prófa nýjar aðferðir og rýna og ræða hvernig gengur. Námskeiðið fer fram í fjórum lotum og lýkur í apríl/maí með menntabúðum. 

Miðvikudagsfundir

Það er tímabært fyrir kennara að taka upp þráðinn aftur í miðvikudagsfundunum sem lognuðust útaf í kófinu. Boðið er upp á margs konar fræðslu og færi gefst einnig til að sinna teymisvinnu sem ekki fellur undir B-hluta kennarastarfsins. Fundur sá sem vera átti 13. janúar skv. skóladagatali fór fyrir lítið því árvekni skólameistara bilaði en næsti er á dagskrá þann 27. skv. skóladagatali.

Allar tillögur frá kennurum um fræðsluefni vel þegnar!

Myndband í bígerð

Á fimmtudag og föstudag koma tveir kvikmyndagerðarmenn í verknámsálmur FVA, skv. sérlegu hólfa- og tímaplani í samráði við deildarstjóra og að öllum sóttvarnarskilyrðum og persónuverndarákvæðum uppfylltum eins og vera ber. Verið er að taka upp efni fyrir nýtt kynningarmyndband FVA og nýjan vef skólans. Á morgun verða tekin víðskot yfir hópinn í mötuneytinu. Síðan verður tekið upp í bóknámskennslustofum skv. sérstöku samkomulagi - láttu skólameistara vita núna ef þú ert með spennandi kennslustund í næstu viku sem væri gaman að hafa í mynd.

Vantar þig einingar?

Laus pláss í ályktunartölfræði, STÆR3ÁT05
Tvö pláss laus í floti og slökun, ÍÞRÓ1AF05

Skráning  hjá áfangastjóra núna!
thorra@fva.is

FabLab í FVA
Valáfangi í FabLab-smiðju fer af stað í vikunni. Í áfanganum gefst nemendum tækifæri til að prófa sig áfram með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Fyrstu tvær vikurnar er kennt í Landsbankahúsinu (sjá mynd) en síðan verður kennslan í Nýsköpunarsetrinu. 

Fössari!

Á föstudögum klæðum við okkur upp fyrir vinnuna
 og förum glerfín inni í helgina!

Muna að skrá sig í matinn

Mikilvægt er að skrá sig fyrirfram í hádegismatinn í mötuneytinu. Annað hvort á listann sem var sendur í tölvupósti til starfsmanna frá skrifstofa@fva.is eða hjá starfsfólki mötuneytis. Ef þú ert ekki skráð/ur er velkomið að koma í mötuneytið eftir 12.30 og athuga hvort það er nógur matur.
Matseðill er hér.

Alltaf heitur og góður hafragrautur á mánudags- og miðvikudagsmorgnum fyrir nemendur í afreksíþróttum! 

Bóndadagur á föstudaginn

Fyrsti dagur Þorra er nefndur bóndadagur
Þorramatur á kaffistofunni og nemendur fá morgunhressingu
Og við drögum fram þjóðbúninginn, þ.e. íslensku lopapeysuna!

https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2021
Ábm: SkólameistariThis email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland