Copy

Hér kemur sprittaða

 

S K R U D D A N


Helstu tíðindi úr FVA 10.3.2020

Stofnun ársins?

Allir starfsmenn FVA fengu sendan póst frá Gallup 27. febrúar um stofnun ársins en könnunin nær til um 50.000 manns á almennum og opinberum vinnumarkaði. 

Tilgangur könnunarinnar er að velja Stofnun ársins og gefa þannig þeim stofnunum viðurkenningu sem standa vel að mannauðsmálum og að veita stjórnendum upplýsingar sem nýtast til að vinna að úrbótum í starfsumhverfinu og skapa starfsmönnum hvetjandi starfsskilyrði. 

Hverri stofnun verður send skýrsla með niðurstöðum svo fremi sem svarhlutfall sé fullnægjandi (að lágmarki 35%). Allir sem klára könnunina fara sjálfkrafa í happdrættispott. Gallup mun hafa samband við vinningshafa.

Tökum öll þátt í könnuninni!

Árshátíð starfsmanna FVAÁrshátíð KOSS verður  haldin með pompi og prakt í Gamla kaupfélaginu, föstudaginn 13. mars, þrátt fyrir veirur og vesen. Dagskráin er tilbúin, verið er að æfa skemmtiatriðin  og matseðillinn er glæsilegur. Um 60 manns hafa skráð sig (á eigin ábyrgð!) og eru margir byrjaðir að pússa dansskóna.

Dýrin frumsýnd


Leiklistarklúbburinn Melló frumsýnir hið heimskunna klassastykki Dýrin í Hálsaskógi á sunnudaginn kl 14.

Önnur sýning er sama dag kl 17 og aðrar fjórar sýningar eru fyrirhugaðar helgina á eftir. Nemendur hafa lagt hart að sér við að  setja upp sýninguna og eiga von á góðri aðsókn. Í verkinu er tvíbentur boðskapur og kynusli, þar sem mörg hlutverkanna eru í höndum stúlkna óháð kyni persóna leikritsins. 

Miðar fást á tix.is. Enginn má missa af þessu!

Kennslukönnun

Hefst í lok vikunnar í íslensku, stærðfræði, tungumálum og málmiðngreinum. Könnunin fer þannig fram að stjórnendur koma í stofu til kennara sem fer afsíðis meðan nemendur svara 24 spurningum um áfangann og eigin frammistöðu. Niðurstöður liggja fyrir fljótlega og kennarar viðkomandi áfanga verða boðaðir í stutt viðtöl þar sem farið er yfir stöðuna og umbætur gerðar í kjölfarið þar sem þarf.

Fræðsla, mikilvægir fundirMiðvikudaginn 11. mars kl 15 í B-207 verður farið yfir notkun nokkurra öflugra kennsluforrita sem vekja áhuga og forvitni nemenda, s.s.  Poll Everywhere, Padlet, Quizlet live, Explain Everything, Doceri. Og OBS Studio, Pixton, Making Science og Imovie. Vinsamlegast mætið með með nettengda og hlaðna síma eða fartölvur.

Föstudaginn 13. mars kl 14 er kennarafundur í B-207 skv. skóladagatali. Fundarefni er m.a. sviðsmynd næstu vikna ef covid19-veiran heldur áfram að grassera, prófahald, nýjar námsbrautir og önnur mál.

Miðvikudaginn 18. mars á að hefja vinnu við endurskoðun skólanámskrár FVA og allir hvattir til að mæta og leggja orð í belg í því mikilvæga verkefni.

Er eitthvað sem þú hefur áhuga á að deila, miðla eða sýna á miðvikudagsfundi á haustönn? Sendu þá skólameistara línu.

Covid19

Kynningu sem vera átti í dag á námsframboði FVA fyrir grunnskólanemendur hefur verið frestað um óákveðinn tíma þar sem það var talið skapa óþarfa smithættu. Opið hús verður hins vegar verður haldið 17. mars nk. - að öllu óbreyttu.

Verðlaunahátíð stærðfræðikeppni grunnskóla verður haldin í FVA laugardaginn 14. mars nk. Reyndar verður athugað seinnipartinn á fimmtudag hvernig málin þróast vegna covid19 og auglýst á vef skólans ef þarf að fella viðburðinn niður vegna smithættu. 

Sprittbrúsar eru um allan skóla og ítrekað hvatt til hreinlætis og handþvotta. Tekið hefur verið fyrir sjálfsskömmtun í mötuneyti til að draga úr smithættu og þrif á snertiflötum eins og hurðarhúnum o.fl. hafa verið aukin.

Viðbragðsáætlun FVA við margs konar vá er öllum aðgengileg á vef skólans, 9. kaflinn fjallar um smitsjúkdóm.

Framkvæmdir

Lokið er vinnu við að rífa innan úr þremur kennslustofum á efri hæð í B álmu skólans. Næst mæta múrarar með alvæpni.

Sett hafa verið upp lofthreinsitæki á neðri hæðinni sem vonandi bæta loftgæði meðan á framkvæmdum stendur. 

Þessa dagana er unnið að því að láta gera skilti sem sýna afstöðu, safnstaði og flóttaleiðir í skólanum ef eldur brýst út. Skiltin verða sett upp víða um skólann.
 

Stofnanasamningur FVA

Lokið er í bili vinnu samstarfsnefndar við stofnanasamning FVA. Ákveðið verður á morgun hvort samningur sem nú liggur fyrir eftir nokkurra vikna viðræður verður undiritaður. Það er stórt skref í átt til nýrra tíma í skólanum ef sátt næst um samninginn með tilheyrandi kjarabótum.

Stofnanasamning skal endurskoða eftir tvö ár. 
 

Fylgdu FVA á facebook...

 
https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2020
Ábm: Skólameistari FVAThis email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland