Copy

Hér kemur einmana

 

S K R U D D A N


Helstu tíðindi úr FVA 17.3.2020

Samkomubann í gildi

Þegar tilkynnt var um samkomubann og lokun framhaldsskóla sl. föstudag áttum við í FVA góðan fund saman þar sem allir voru einhuga um að gera það besta í stöðunni. Kennsluháttum og námsmati er breytt í kjölfarið og eins og áður lögð mikil áhersla á að halda nemendum við efnið. Þungbært var að fresta frumsýningu á Dýrunum í Hálsaskógi sem vera átti sl. sunnudag en ekki þótti forsvaranlegt að hóa svo mörgum saman á einn stað meðan veiran er á sveimi. Frumsýningin verður 19. apríl.

Fyrsta kennsludaginn í banni var mikið álag á INNU þegar rúmlega 5.000 notendur reyndu að skrá sig inn í kerfið sem er margfalt á við venjulega. Í dag gengur þetta betur en vert er að brýna foreldra til að hlúa sérstaklega að börnum sínum og hvetja þau til að halda sig við að læra skv. stundaskrá, sofa vel um nætur og huga að því að styrkja líkama og sál með hreyfingu, hollu mataræði og uppbyggilegu námi. Þá er mikilvægt að að fylgjast með heimasíðu FVA og tölvupósti. Vakin er athygli á covid19-hnappnum okkar þar sem ávallt eru nýjustu fréttir.

Kennarar FVA eru lausnamiðaðir, stilla sína strengi og leggja hart að sér við aðlaga kennsluna nýjum aðferðum og miðlum og flestir nemendur taka námið föstum tökum þótt ekki sitji þeir í kennslustofunni eins og vanalega.

Tölvuþjónusta FVA leggur nótt við dag og tekur á móti beiðnum um aðstoð í hjalp@fva.is. Lífið heldur jú áfram og vont ef önnin fer til spillis. Í þessum óvenjulegu kringumstæðum hefur skapast dýrmæt þekking hér í skólanum sem við munum búa áfram yfir, allir kunna núna á Teams, ljóst er að við öll getum brugðist allsnarlega við breyttum aðstæðum þegar þörf er á og nú hafa líka allir tileinkað sér heilsufræði og forvarnir gegn alls konar pestum og smiti til frambúðar.

Stofnanasamningur FVA

Engin handabönd við undirritunina, bara olnbogar
 
Stofnanasamningur var loksins undirritaður í FVA eftir áralangt þóf. Í stofnanasamningnum eru lagðar faglegar áherslur næstu ára og félagsmönnum KÍ raðað til launa en síðan er greitt skv. launatöflu sem fylgir miðlægum kjarasamningi. Samstarfsnefnd er sátt við samninginn sem borinn var undir kennara FVA í síðustu viku.
 
Nýr stofnanasamningur er aðgengilegur á vef KÍ ásamt samningum annarra framhaldsskóla. Í samningnum er grunnhækkun á alla, eingreiðsla og einni starfsaldurshækkun bætt við þær sem fyrir voru. Bætt er í mikilvæg verkefni eins og heilsueflingu, jafnréttismál og umsjón með starfsbraut svo dæmi séu tekin. Þá eru starfsmenn hvattir til að sækja sér heildstætt viðbótarnám  og fá til þess svigrúm í stundatöflu og þrepahækkun að námi loknu.

Samningurinn er endurskoðaður á tveggja ára fresti eins og vera ber.
 

Skipt í liðTil að fyrirbyggja að lykilstarfsmenn FVA smiti hver annan eða veikist á sama tíma skiptumst við á að vinna heima og í skólanum næstu tvær vikur.
 
16.-20. mars
Rauða liðið mætir í FVA á mánudag, þriðjudag og miðvikudag, græna liðið vinnur heima.
Græna liðið mætir í FVA fimmtu- og föstudag, rauða liðið vinnur heima.
 
23.-27. mars
Græna liðið mætir í FVA mánu- og þriðu- og miðvikudag, rauða liðið vinnur heima.
Rauða liðið mætir í FVA fimmtu- og föstudag, græna liðið vinnur heima.
 
 
Rauða liðið: Skólameistari, fjármálastjóri og forstöðumaður bókasafns.
Græna liðið: Aðstoðarskólameistari, áfangastjóri og fulltrúi á skrifstofu.

Námsráðgjafar og hjúkrunarfræðingur taka síma-/ netviðtöl og svara tölvupóstum ýmist að heiman eða frá skrifstofu  sinni.
 
Kennarar mega koma og kenna í sínu stofum en aðeins skv stundaskrá og koma ekki á kennarastofu. Allir huga að sóttvarnarráðstöfunum og taka mið af tilmælum sem fylgja samkomubanninu, ss 2 metrar milli fólks (líka á kaffistofu og mötuneyti), handþvottur og sprittun.

Stofnun ársins?Allir starfsmenn FVA fengu sendan póst frá Gallup síðast í dag um stofnun ársins

Mikilvægt er að taka þátt í könnuninni!

Gjöf frá Lions

Lionsklúbburinn Eðna á Akranesi  ætlar að færa starfsbraut í FVA fjórar Ipad-spjaldtölvur að gjöf þegar samkomubanni lýkur. Fyrir hönd starfsbrautar og FVA þakka ég hlýhug og höfðingsskap, gjöfin verður mjög vel þegin og kemur að góðum notum.

Skólameistari

Fræðsla, mikilvægir fundir


Þrátt fyrir óvenjulegar kringumstæður látum við ekki deigan síga á okkar góðu miðvikudagsfundum. Á morgun hefst frumvinna við endurskoðun skólanámskrár FVA eins og til stóð. Enginn mætir í holdinu vegna samkomubanns en öllum starfsmönnum velkomið að taka þátt í TEAMS.

Smelltu hér til að taka þátt í fundinum á morgun kl. 15.
 

Halda sér í formi


Smelltu á myndina og gerðu nokkrar hressandi styrktaræfingar á stofugólfinu í samkomubanninu.
Hreyfing er mikivæg!

Vottað jafnlaunakerfi í sjónmáli!


Undanfarnar vikur og mánuði höfum við unnið að mótun jafnlaunakerfis sem nær utan um markmið, verklag, áætlanir og aðgerðir sem snúa að jafnlaunastefnu FVA og sem uppfylla kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.

Tilgangur jafnlaunakerfisins er að viðhafa markviss og fagleg vinnubrögð við ákvörðun launa allra starfsmanna þannig að hún feli ekki í sér kynbundna mismunun. Lögum samkvæmt skal kerfið vottað af faggiltum vottunaraðila um að það uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012.

Í síðustu viku vorum við tilbúin í úttekt á kerfinu og framkvæmdi vottunarstofan iCert útttektina sem gekk vel. Niðurstaðan kom í hús í gær: Mælt er með því að FVA fái vottun og vottunarskírteini því til staðfestingar. Við erum heldur betur sátt með þetta.

Það munu þó líða nokkrar vikur þar til vottunin er í höfn því vottunarnefnd vottunarstofunnar þarf fyrst að fullvissa sig um að gæði úttektarinnar séu hafin yfir allan vafa. Þegar það er afgreitt þá sendir hún skírteinið til Jafnréttisstofu sem í framhaldi veitir okkur jafnlaunamerkið til staðfestingar á að við höfum hlotið faggilta vottun á jafnlaunakerfinu. Já, þetta er kannski svolítið löng leið en við tökum því með æðruleysi. Að fenginni jafnlaunavottuninni ber okkur að tryggja farsæla innleiðingu og viðhald kerfisins en vottunarstofan framkvæmir viðhaldsvottun árlega.  

Þegar Jafnréttisstofa hefur staðfest vottunina kynnum við jafnlaunakerfið fyrir starfsmönnum, þar með talið niðurstöður launagreiningar sem sýnir okkur hvort kynbundinn launamunur sé til staðar hjá FVA.
https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2020
Ábm: Skólameistari FVAThis email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland