Copy

Hér kemur 

S K R U D D A N


Helstu tíðindi úr FVA 28. apríl 2020

Þannig fór um sjóferð þá


Frá því að samkomubann vegna kórónuveiru var sett mánudaginn 16. mars sl. hefur nám í FVA farið fram með fjarkennslulausnum. Nú hefur formlega verið opnað á kennslu í framhaldsskólum með þeim takmörkunum að tryggt skuli að ekki verði fleiri en 50 manns inni í sama rými og eftir sem áður „skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.“

Það er þó mat skólameistara að það sé ekki áhættunnar virði að boða alla nemendur í skólann aftur í þann stutta tíma sem eftir er, heldur verði allir að leggjast á eitt til að flæma veiruna brott. Það gerum við með sem minnstu samneyti. Unnið hefur verið að því undanfarna daga að útfæra síðustu vikur vorannar í samræmi við það. 

Ljóst er að engin skrifleg lokapróf verða í húsakynnum skólans við lok annar. Rafræn próf verða á próftíma skv. próftöflu og öðrum áföngum lokið með símati. Kennsla úr fjarlægð heldur áfram skv. stundaskrá á námsmatsdögum.

Forgangshópar, aðallega í verklegum greinum sem útilokað er að stunda utan kennslustofu,eiga að koma í skólann mánudaginn 4. maí til og með þriðjudegi 19. maí. Um er að ræða eftirtalda áfanga:

Húsasmíðabraut: TRÉS1VT08, GLUH2GH08, INRE2HH08, INNK2HH05

Rafvirkjabraut: VGRT2GA03, RALV1RÖ05, RALV3RÖ03

Vélvirkjabraut: PLV2024, REN2036, HVM4036, HVM6036, HSU1024, RSU2024, TTÖ1036. TTÖ2036

Í INNU eru allar upplýsingar um fyrirkomulag kennslunnar þessa daga. Aðrir nemendur en þeir sem eru í ofangreindum áföngum koma ekki aftur í skólann á þessari önn, nema þeir séu boðaðir sérstaklega.

Skólanum er skipt upp í aðskilin rými fyrir verklega kennslu sem deildarstjórar skipuleggja með áfangastjóra. Það er skylda skólans að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna eins og kostur er. Því verður mikl áhersla lögð á smitvarnir umrædda daga, handþvott, handsprittun, tveggja metra fjarlægð og aðskilda innganga í skólahúsnæðið. Nemendur í viðkomandi verknámsrýmum ganga beint inn í þau og nemendafjöldi í hverju rými er takmarkaður. Svarað er í síma á skrifstofu alla daga og stjórnendur eru til skiptis á staðnum, hægt er að hafa endilega samband í síma 433 2500 ef eitthvað er óljóst.

Sameiginleg rými eru lokuð þessa daga, þar með talið mötuneyti, en opið á bókasafni með öllum varúðarráðstöfunum fyrir þá nemendur sem eru innanhúss, sjá upplýsingar frá bókasafni hér á eftir. Námsráðgjöf verður áfram sinnt í gegnum netið. Opið er á heimavist fyrir þá nemendur sem fá að koma í skólann, þar til kennslu í viðkomandi áföngum lýkur.

Í nokkrum framhaldsskólum hefur þegar verið afráðið að brautskráningarathöfn fari fram í streymi að 50 manns viðstöddum. Brautskráning FVA er dagsett föstudaginn 29. maí. Nánar verður tilkynnt um hvort tímasetning breytist eða hvernig athöfninni verður háttað þegar nær dregur.

Bókasafn FVA


Þjónusta bókasafns FVA verður aukin frá og með 4. maí. Til að framfylgja reglum um fjarlægðarmörk og sóttvarnir þurfa nemendur að bóka tíma á bókasafnið, annað hvort í fyrra hólf (frá kl. 9-12) eða seinna hólf (frá kl. 13-16). Gæta þarf að tveggja metra fjarlægð milli allra gesta.

Nemendur hringja í Björgu í síma 8992331 eða hafa samband í tölvupósti/Teams á bjorgb@fva.is til að bóka tíma í hólfi.

Nemendur komast ekki inn í skólabygginguna en hafa samband við Björgu og fá fylgd inn og út.

Tölvuverið verður lokað, en hægt að nota tvær tölvur á bókasafni ef notaðir eru hanskar og spritt, vegna smithættu á lyklaborðum. Allir snertifletir, borð og stólar, verða sprittaðir eftir lokun hvers hólfs.

Skilakassi verður settur upp fyrir utan bókasafnið og verður bókum sem þangað er skilað gert að hvíla í sóttkví áður en þær eru lánaðar út aftur.

Deildarstjóri óskast

Laust er til umsóknar starf deildarstjóra í sögu, samfélagsgreinum og lífsleikni frá 1. ágúst 2020 - 31. júlí 2022. 

Starfslýsingu deildarstjóra og launakjör er að finna í stofnanasamningi FVA.

Umsóknir berist skólameistara ásamt lýsingu á framtíðarsýn fyrir deildina.
Umsóknarfrestur er til og með 22. maí.

Mikilvægir fundir


Nú líður að námsmatsdögum og álagið er farið að segja til sín hjá ofurkennurum FVA sem þó er ekki fisjað saman. 
Við ætlum að stappa stáli hvert í annað á samstöðufundi miðvikudaginn 29. apríl kl. 15.
Frjáls mæting í frjálsu landi.
Sjáumst!

Námsmat á Covid tímum

Á morgun, miðvikudag, 29. apríl  kl. 16:00, er fyrirlestur um rafrænt námsmat í boði á Teams fyrir kennara FVA.

Amalía Björnsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði HÍ, mun fjalla um hvað við þurfum að hafa í huga í námsmati á þessum óvenjulegu tímum. Hún miðlar af reynslu sinni af rafrænu námsmati, hvað þurfi að varast og fjallar um mikilvægi þess að undirbúa nemendur vel. 

Það er frjáls mæting á fundinn. Fundarboð berst í tölvupósti innan skamms. Þið sem mætið, vinsamlega verið tímanlega á ferðinni svo fundurinn geti hafist á slaginu!  

Amalía mun skilja eftir glærur hjá okkur sem verða aðgengilegar eftir fundinn fyrir þá sem ekki geta mætt. 

Könnun um stofnun ársins

Vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu sem orsakast af COVID-19 faraldrinum hefur stjórn Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu ákveðið að fresta því að birta niðurstöður úr könnuninni um Stofnun ársins 2020.

Þann 14. október verða niðurstöður kynntar. Þann sama dag verður efnt til málþings í tengslum við könnunina. Söfnun gagna í könnuninni er nú lokið og er öllum þakkað fyrir þátttökuna.

Tvöfalt auðkenniNú setjum við upp svokallað tvöfalt auðkenni (Multifactor Authentication - MFA) hjá kennurum í FVA. Það þýðir að staðfesting þarf að berast í símann þegar reynt er að komast inn í tölvuna frá öðrum stað en venjulega. Ef tölvuþrjótur kemst yfir lykilorð, kemst hann ekki lengra með sín slæmu áform ef tvöfalt auðkenni hefur verið sett upp á tölvunni.

Opnað verður fyrir þetta á miðvikudag kl 15:00, þá er gott að vera búin að lesa  leiðbeiningarnar í Teams.

https://www.facebook.com/FVA-Fj%C3%B6lbrautask%C3%B3li-Vesturlands-Akranesi-242968919124182/
https://www.instagram.com/fjolbraut/
https://www.fva.is/e

©FVA 2020
Ábm: Skólameistari FVAThis email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi · Vogabraut 5 · Akranes 300 · Iceland