Copy
Fréttabréf franska sendiráðsins á Íslandi | 38. tbl. | Maí 2015

Á döfinni

Freigátan Latouche-Tréville kemur í heimsókn

Freigátan Latouche-Tréville liggur í Reykjavíkurhöfn frá 27. maí til 1. júní næstkomandi.

Koma freigátunnar sætir nokkrum tíðindum og síðast lagðist hún hér að landi í júní 2010. Þá sem ekki hafa stigið um borð getum við frætt á því að hún er 139 metrar á lengd, 15 metrar á breidd og skipverjar eru 240 að tölu.

Freigátan er heitin eftir Louis-René Levassor, greifa af Latouche-Tréville sem fæddist árið 1745 í Rochefort. Hann var af sæfarakyni, gekk í sjóliðsforingjaskólann árið 1758, varð sjólautinant 1768 og tók þátt í frelsisstríði Bandaríkjamanna þegar hann stjórnaði freigátunni Hermione, þeirri sem sigldi með Lafayette til Bandaríkjanna 1780. Eftirmynd Hermione lagði einmitt nýlega úr höfn í Frakklandi áleiðis til Bandaríkjanna.

Latouche-Tréville varð hæstráðandi hafna og skipakvía árið 1784 og útnefndur fulltrúi aðalsmanna á stéttaþinginu 1789. Hann varð undiraðmíráll 1793 en hnepptur í fangelsi á meðan á ógnarstjórninni stóð. Ári síðar var honum sleppt úr haldi. Eftir það stjórnaði hann flotadeild undan Boulogne og varði bæinn fyrir Bretum. Síðar varð hann aðstoðaraðmíráll og forsjármaður Miðjarðarhafsstranda en andaðist í Toulon árið 1804.

Hægt verður að skoða freigátuna milli 29. og 31. maí. Opnað verður fyrir skráningar á vef Alliance française á næstunni.

Auglýsing um styrki

Sendiráð Frakka býður nú styrki af tvennum toga.

Íslenskum stúdentum bjóðast fimm styrkir til náms í Frakklandi skólaárið 2015-2016. Umsóknargögnum ber að skila fyrir 21. maí 2015, það er því ekki eftir neinu að bíða! Umsóknareyðublöð og aðrar upplýsingar er að finna hér. Hikið ekki við að hafa samband í netfang ambafrance@ambafrance-is.org ef þið þurfið einhvers að spyrja.

Vísindamenn geta sótt um Jules Verne styrkina. Þeir heyra undir Hubert Curien áætlunina og er ætlað að efla gagnkvæm skipti íslenskra og franskra vísindamanna. Markmiðið með áætluninni er að auðvelda og þróa samvinnu í vísindum og tækni í fremstu röð milli rannsóknahópa í báðum löndum og tengja þá við vísindaáætlanir í Evrópu. Frakkar og Íslendingar kosta jafnt þessa styrki sem veittir eru til tveggja ára. Umsóknargögn, sem nálgast má hér eða hér, ber að senda fyrir 18. september 2015 til Vísinda- og menningardeildar Sendiráðs Frakka í Reykjavík.

Til umsóknar - Menningarverkefni 2016

Ert þú með á prjónum menningarverkefni sem þig langar að kynna fyrir Sendiráði Frakka og Alliance française í Reykjavík 2016?

Ef svarið er já sendu okkur þá tillögur fyrir 31. maí 2015 á eftirfarandi netfang: cooperation.culturelle.is@gmail.com.

Takið eftir! Umsókninni verða að fylgja eftirfarandi gögn:
  • Lýsing á verkefninu (ein blaðsíða, ásamt ljósmynd/myndbandi ef með þarf)
  • Upplýsingar um hvenær verkefnið yrði sýnt á Íslandi
  • Listi yfir  aðföng (tæki, húsrými...)
  • Bráðabirgðafjárhagsáætlun, þar sem skylt er að geta um styrki sem þegar hafa fengist eða sótt hefur verið um.

Ljósmyndasamkeppnin Neyðarástand í loftslagsmálum

Alliance française í Reykjavík tekur í fimmta skipti þátt í alþjóðlegri ljósmyndakeppni í aðdraganda 21. ráðstefnunnar um loftslagsmál (COP21) sem fram fer í Frakklandi í desember 2015. Það er Alliance française stofnunin sem stendur fyrir keppninni með aðkomu Yann Arthus Bertrands undir yfirskriftinni: Neyðarástand í loftslagsmálum.

Þátttakendur eru beðnir að leggja fram ljósmyndir sem draga fram hvað við er að kljást á Íslandi varðandi loftslagið og breytingar á því í sýnd eða reynd, áhrif þessa á líf fólks og lausnir, hvort sem er opinberra eða einkaaðila, sem gripið er til á Íslandi til að snúast gegn óæskilegum áhrifum þessara breytinga.

Dómnefnd í París útnefnir vinningshafa og verður honum boðið í vikuferð til Parísar, ferðir og uppihald á kostnað Alliance française stofnunarinnar.

Dómnefndin velur 40 innsendar ljósmyndir og stendur að sýningu á þeim í París og eftir það stendur sýningin Alliance française félögunum til boða.

Allar nauðsynlegar upplýsingar (reglur, eyðublöð, dagsetningar...) er að finna á vefsvæði Alliance française.
 
Fransk-íslenskar fréttir

Jarðhitaráðstefnan í París 16. apríl

Ráðstefnan og viðskiptaþingið, sem Fransk-íslenska viðskiptaráðið stóð fyrir í húsakynnum Viðskipta- og iðnaðarráðs Parísar fimmtudaginn 16. apríl síðastliðinn, tókst afar vel. Ráðstefnuna sótti fjöldi sérfræðinga á sviði jarðhitafræða.

Fundinn sóttu forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og ráðherra iðnaðar- og nýsköpunarmála, Ragnheiður Elín Árnadóttir. Þau ræddu meðal annars við Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakka og ráðherra þróunarmála, sem einnig sótti ráðstefnuna, og Ségolène Royal, ráðherra umhverfismála, sjálfbærni- og orkumála.

Ólafur Ragnar átti einnig fund með François Hollande Frakklandsforseta sem tilkynnti við þetta tækifæri að hann myndi verða viðstaddur opnun Arctic Circle ráðstefnunnar í Reykjavík í október 2015.

Í tengslum við ráðstefnuna var einnig undirritaður samningur um samvinnu fyrirtækjanna Verkíss og Clemessys og ennfremur samstarfssamningur um jarðhitamál milli Verkfræðistofnunarinnar í Strassburg (INSA) og Háskólans í Reykjavík.

Viðskiptajöfnuður Frakklands og Íslands 2014

Samkvæmt upplýsingum frá tollembættinu í Frakklandi námu vöruviðskipti Íslands og Frakklands 288 miljón evrum árið 2014 sem er aukning um 13% frá árinu á undan.

Innflutningur frá Íslandi til Frakklands jókst um 26,4% miðað við 2013 (224 miljónir evra). Þar er einkum um að ræða innflutning á þremur vörutegundum: unnið fiskmeti og frystur fiskur sem nemur 60% af heildarinnflutningi frá Íslandi; málmar og málmvörur og þá fyrst og fremst ál (31,2% af heildinni) og lyf og lyfjavörur (9,7% af heildinni árið 2014 og hafði dregist lítið eitt saman eða úr 11% árið 2013.)

Útflutningur frá Frakklandi til Íslands nam rúmum 63 miljónum evra og jókst um 18,8% miðað við 2013. Þar er einkum um að ræða iðnvarning, fyrst og fremst bifreiðar (20,7% á árinu og hafði aukist um 82% frá 2013), vélar fyrir landbúnað og skógrækt (7% af heildinni og hafði dregist saman um 33%) og ilmvötn og snyrtivörur (5,5% útflutningsins og hafði vaxið um 8%).

Arnaldi Indriðasyni veitt frönsk orða

Sendiherra Frakka á Íslandi, Philippe O'Quin, sæmdi Arnald Indriðason rithöfund riddaraorðu lista og bókmennta 23. apríl síðastliðinn í embættisbústað sendiherrans. Viðstaddir athöfnina voru ættingjar Arnalds, vinir og samherjar í bókmenntaheiminum á Íslandi og í Frakklandi.

Lista- og bókmenntaorðunni er ætlað að „heiðra þá sem skara fram úr í list- eða bókmenntasköpun (...) jafnt í Frakklandi sem annars staðar.“

Með þessari orðu er heiðraður mikill meistari í gerð íslenskra glæpasagna sem er frægur í Frakklandi og hafður þar í hávegum.

Erlendur Sveinsson lögreglumaður er löngu orðinn heimsfrægur og bækurnar um rannsóknir hans hafa verið þýddar í 37 löndum og miljónir manna hafa lesið þær út um allan heim.

Þrettán bækur Arnalds hafa verið þýddar á frönsku. Sú síðasta, „Reykjavíkurnætur“, kom út í byrjun þessa árs í þýðingu Erics Bourys og hefur hlotið lof gagnrýnenda.

Samkoma fyrrum styrkþega franska ríkisins

Sendiráð Frakka á Íslandi stóð 8. apríl síðastliðinn fyrir samkomu með þeim sem á liðnum árum hafa hlotið námsstyrki frá franska ríkinu. Einir þrjátíu styrkþegar og samstarfsmenn sendiráðsins frá háskólunum á Íslandi komu saman með sendiherranum, Philippe O'Quin, og frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands og frönskukennara sem setti mikinn svip á samkomuna.

Sendiherra Frakka nefndi í ávarpi sínu að samtök fyrrum styrkþega og vefurinn FranceAlumni hefðu miklu hlutverki að gegna. Það er Campus France sem heldur úti vefnum www.francealumni.fr. Nefnd fyrrum styrkþega ætlar að huga að því hvernig samtökum þeirra yrði best komið á fót og hvernig samtökin ættu að starfa. Allir viðstaddir voru hvattir til að tala við og virkja þá styrkþega sem þeir vissu af. Ef þú hefur þegið styrk frá franska ríkinu eða ef þú þekkir einhvern sem það hefur gert hikaðu þá ekki við að láta boð út ganga og/eða senda okkur orðsendingu í netfangið ambafrance@ambafrance-is.org.

Það ríkti mikil ánægja með þetta boð og í framhaldinu var ákveðið að efna til annarrar samkomu þegar næstu styrkþegar hafa verið valdir, til að þeir ættu sér strax frá upphafi bakhjarl í styrkþegasamtökunum.

Gott gengi barna og fullorðinna í DELF prófunum

Alliance française félagið í Reykjavík er eina prófstofnunin á Íslandi sem CIEP kennslumiðstöðin í París (Centre international d'études pédagogiques) hefur viðurkennt. DELF frönskuprófin (Diplôme d'étude en langue française) hafa nú verið haldin í 30 ár, og félagið gerði tímamótunum góð skil með prófum dagana 27.-30. apríl síðastliðinn.

Allir kennarar Alliance française komu að verkefninu og sinntu því af stakri alúð og velvilja. Þetta var raunar í fyrsta skipti sem prófin frá CIEP voru opin almenningi, ungum sem öldnum.

Prófþegar voru 51 og árangurinn? Allir, 100%, stóðust DELF og DALF (Diplôme d'aptitude en langue française) prófin!

Þetta var eitt af markmiðunum með námskeiðunum fyrir börnin og því náðum við með stuðningi foreldrafélags frönskumælandi barna, sem Marion Herrera stýrir, og menntamálaráðuneytisins íslenska sem gerðu Alliance française í Reykjavík kleift að mennta kennarana til þessa verkefnis og að taka að sér skipulag prófanna og umsjón með þeim.

Og nú er að hamra járnið meðan það er heitt. 30 ára afmæli þessara prófa er fagnað víða um veröld, afhending prófskírteina verður boðuð innan skamms og efnt til athafnar í maí: Prófþegum, fjölskyldum þeirra og kennurum verður að sjálfsögðu boðið.

Nánari upplýsingar er að finna hérna.

„Vendredi c'est permis“ kvöldstundin helguð Vanuatu

Alliance française félagið í Reykjavík og starfsfólk þess tók höndum saman við Alliance française stofnunina til að styrkja vini sína í Eyjaálfu sem fellibylurinn Pam lék svo grátt í mars síðastliðnum. Tekjur af kvöldstundinni (skráningargjöld, gjafir, laun kennara) renna óskertar til Vanuatu. Á þessari kvöldsamkomu kynntust börnin nýrri hlið á Frakklandi, sem sé Réunion eyju. Þau sem stóðu að kvöldstundinni höfðu ekki dregið af sér og útbúið framandlega veröld sem börnin heilluðust af og sum brugðu sér meira að segja í sundfötin!

Þetta var sérlega vel heppnuð kvöldstund og sú síðasta á skólaárinu 2014-2015. Við notum tækifærið til að þakka starfsliðinu, þeim Hugo, Lilju, Elínu, Philippe, Sophie, Anne-Claire og öllum sjálfboðaliðunum sem lögðu hönd á plóginn í ár. Við sjáumst aftur í haust!

Takið eftir: Söfnunin til Vanuatu stendur enn. Hikið ekki við að hafa samband ef þið viljið láta fé af hendi rakna.

Barnamenningarhátíð 2015: Rauðhetta

Alliance française var svo heppið að geta staðið á bak við listrænt verkefni á Barnamenningarhátíð 2015, ásamt ASSITEJ á Íslandi, (Alþjóðasamtökunum um leiklist fyrir börn og ungmenni): Rauðhettu með Compagnie Divergence. Þar var blandað saman látbragði, dansi og hljóði til að koma ævintýrinu fræga sem best til skila til ungra áhorfenda. Það voru fjórar sýningar í Tjarnarbíói og slógu þær í gegn. Meira en 310 áhorfendur komu á sýningarnar, þar af 145 úr skólunum, sem sannar að hátíðin er að festa sig í sessi hjá fagfólki og almenningi.

Alliance française er himinlifandi yfir samstarfinu við ASSITEJ á Íslandi og þá ekki síst í dansstofunum þar sem ungir og upprennandi dansarar voru í essinu sínu. Það var létt yfir öllum í dansstofunum og við taktfasta lifandi músík gátu börnin sleppt fram af sér beislinu í tvo klukkutíma, og það gerðu þau líka svikalaust.

Segðu mér sögu - Ferðin til Frakklands

Sögukonurnar okkar fransk-íslensku, þær Maríon og Sigga, héldu aftur inn á sagnaslóðir þegar hópur skólabarna gekk á þeirra fund í Alliance française.

Það voru þær Sigríður Sunna Reynisdóttir og Marion Brochet sögukonur sem stóðu á bak við uppfærsluna á sögunum á svo magnaðan hátt, í sviðsmynd Kristinu Berman, að stórir sem smáir í hópnum (93 alls) fylgdust bergnumdir með. Þeir sigldu út á hafið og lentu á franskri strönd, tíndu þar skeljar, rákust á sofandi malara og fengu að lokum að bragða á hreint ótrúlegri töfraeplaköku sem enginn nema Sigurveig Káradóttir kann að baka.

Með styrk frá Ráðhúsi Reykjavíkur og Alliance française hefur verið hægt að efna til þessara sýninga. Aðrar sýningar verða auglýstar á næstunni á vef okkar www.af.is.
Í sviðsljósinu

Halldór Björn Runólfsson

Safnstjóri Listasafns Íslands
Ég fæddist í París og þar lagði ég stund á ýmiss konar nám: Líffræði, tungumál, málvísindi, indverska menningu og svo vitanlega kennslu frönsku fyrir útlendinga, þá sérstaklega hjá Louis Porcher og öllu liðinu í École normale supérieure í Saint-Cloud.

Þegar ég fór að kenna frönsku fyrir útlendinga var ég ekki alveg búin að ljúka náminu því mér datt í hug að sækja um að gegna herskyldu sem sjálfboðaliði (já, já, í hernum!). Gögnin frá mér gengu á milli ýmissa deilda en eftir nýliðapróf hersins var mér boðið starf í Indlandi. Ég beitti því fræðilegri þekkingu minni hjá Alliance française í Mumbai.

Eftir þessa reynslu, sem var afskaplega lærdómsrík, fékkst ég við allar mögulegar hliðar á starfinu, með ráðningarsamningum af öllu tagi út um allan heim, á vegum Alliance française. Flest löndin, sem ég starfaði í, voru af heitara taginu, Indland, Mexíkó og Malasía...

Þegar við sögðum vinum okkar að við værum á leið til Íslands, skelltu þeir upp úr því það er óneitanleg dálítið sérstakt að fara frá Pulau Penang (Fiðrildaey í Malasíu) til íseyjunnar. En mér þætti heldur ekkert að því að fara til Úlan Bator. Mér finnst skemmtilegast að fást við nýtt og nýtt hlutverk innan samtaka eins og Alliance française.

Áður fyrr held ég að kennslan á vegum Alliance française hafi verið afar sundurleit, eftir löndum. Aðildarfélögin eru sjálfstæð og lúta lögum hvers lands og því voru kennsluhættir og rekstur félaganna býsna ólíkir. Eftir 2006 fór þetta að breytast. Alliance française stofnunin kom á fót viðmiðum í gæðaátaki og þannig fylgjum við almennum reglum en höldum samt sérkennum okkar. Við erum íslensk! Og þegar betur er að gáð sjáum við að munurinn á félögunum felst fyrst og fremst í umfanginu. Það er enginn smáræðismunur á félagi sem opnar dyr sínar klukkan sjö á morgnana til að kenna átaksnámskeið, eins og Alliance française í Polanco í Mexíkó, og svo á félagi eins og Alliance française í Reykjavík sem býður nemendum sínum kvöldnámskeið.

Það er ástin sem dregur Íslendinga í frönskunám! Það er aðalástæðan: Ást á frönskum dreng eða franskri stúlku, hrifning af franskri matargerð, vínum, júdómeisturum eins og Teddy Riner, takmarkalítil hrifning af frönskum kvikmyndum, franskri menningu... Nemendurnir okkar eru fljótt frá sagt hrifnir af Frakklandi. En svo ég tali í meiri alvöru þá virðist frönskukunnátta vera mikil búbót fyrir marga af nemendum okkar. Þegar þeir hafa áttað sig á að það er ekkert stórmál að læra frönsku þá halda þeir áfram, leggja mikið í sölurnar og franska verður dýrmæt kunnátta: Hinn frönskumælandi heimur opnast fyrir þeim og þar með atvinna og stöður hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjum.

Alliance française á Íslandi er 104 ára og félagsmenn eru allt frá fjögurra til áttatíu og þriggja ára gamlir. Mér liggur við að segja að við séum samgróin íslenskri menningu en annars held ég að Íslendingar séu að uppgötva þetta íslenska félag á nýjan leik, þessa brú milli tveggja menningarheima. Þessi nýi kraftur og nýja afstaða, sem blasir við okkur eftir hrun, á kannski líka sína skýringu í feikilegum áhuga Frakka á Íslandi. Frakkar eru mjög hrifnir af landinu, það heillar þá eins og við sjáum á öllum umsóknunum sem við fáum um námsdvöl, öllum beiðnunum um samvinnu um útvarps- og sjónvarpsþætti og blaðagreinar sem síðan er dreift um allt Frakkland. Það sjáum við líka á öllum íslensku rithöfundunum sem njóta hylli í Frakklandi. Þessi velvild á báða bóga skilar sér í auknum áhuga Íslendinga á Frakklandi og á frönsku.

Hins vegar er það ekkert launungarmál að frönskukennsla á Íslandi hefur gefið eftir. Það kreppir að tungumálakennslu á Íslandi eins og annars staðar í heiminum. Frá 1998 hefur til dæmis kennsla evrópskra tungumála í hinum enskumælandi heimi, á framhaldsskóla- og háskólastigi, dregist saman um 35%. Einu tungumálin, sem ekki væsir um, eru arabíska, kínverska og spænska, eina evrópska tungumálið, sem samt er á undanhaldi. Sama er uppi á teningnum á Íslandi, dregið hefur úr aðsókn í frönsku. Í mínum augum er samt glasið hálffullt og það er margt að gerast sem styrkir frönskunámið, við erum að þétta raðirnar!

Myndin Ömurleg brúðkaup (Qu'est-ce qu'on a fait au Bon Dieu?), hefur notið fádæma vinsælda á Íslandi og eykur veg franskra kvikmynda. Þessi mynd hefur farið um allan heim. Ég sá að hún er til í 57 textuðum útgáfum á vefnum, þetta eru engar smáræðisvinsældir. Myndin varð vinsæl frá fyrsta sýningardegi. Það var þetta með fjölskyldu í mótbyr, sem kveikti í mönnum, og líka hitt að „enginn ræður sínum vandamönnum“. Þannig var þetta býsna góð gamanmynd. Gefur hún raunsanna mynd af fjölmenningarlegu þjóðfélagi í Frakklandi? Nei, fjölmenningin í Frakklandi er víðtækari en svo og snýst ekki um rasíska brandara þjóðfélagshópa hvers í annars garð. En myndin sýnir vel að Frakkland er þjóðfélag með ótal ásýndir og að hugmyndin um „dæmigerða fjölskyldu“ er að breytast.
Allur réttur áskilinn © 2015 Franska sendiráðið á Íslandi.Logo Ambassade de franceÁbyrgðarmaður: Gaëlle Hourriez-Bolâtre
Ritstjóri:  Pálmi jóhannesson
Tölvupóstur: ambafrance@ambafrance-is.org
Heimasíða: www.ambafrance-is.org

Franska sendiráðið á Íslandi | Ambassade de France en Islande

likes
Á síðunni okkar finnurðu upplýsingar um viðburði sendiráðsins, menningu og mannlíf í Frakklandi, og hin fjölbreyttu tengsl landanna tveggja.
connect with me!