Copy
Fréttabréf franska sendiráðsins á Íslandi | 23. tbl. | Desember 2013

Gleðileg jól,Joyeux Noël 


Til foreldra frönskumælandi nemenda. Þróun frönskukennslu.

Félag foreldra franskra barna á Íslandi hefur sett spurningalista á netið til að kynna sér óskir foreldra varðandi frönskukennslu í grunnskólum. Endilega komið óskum ykkar á framfæri sem fyrst með því að opna tengilinn og svara spurningalistanum.
 
 Efnisyfirlit nýjasta tölublaðs Frétta úr sendiráðinu:

Á döfinni

Heimildamyndir eftir Jacques Debs í Bíó Paradís
 

Fransk-líbanski heimildakvikmyndagerðamaðurinn  Jaques Debs kynnir tvær af myndum  sínum um fyrstu kirkjurnar í Austurlöndum 6.desember kl.17:30  í  Bíó Paradís. Hann mun í kjölfarið svara spurningum frá gestum. Ókeypis aðgangur. Eftir sýninguna  gefst kostur á frekari umræðum við leikstjórann og boðið verður upp á léttar veitingar.
Jaques Debs heldur einnig  fyrirlestur í Alliance française 7.desember um sættir trúarbragða í Austurlöndum.
 

Næstu prófdagar fyrir DELF-DALF frönskuprófin í desember 2013, í Alliance française í Reykjavík

 
Alliance française í Reykjavík er viðurkenndur prófstaður fyrir DELF og DALF frönskuprófin. Löggilt prófskírteini, sem gildir fyrir lífstíð, er gefið út að loknu prófi.
Næstu próf verða haldin 9 til 13. desember 2013. Síðasti skráningardagur er 7. desember 2013. Væntanlegir próftakar  í Reykjavík og annarsstaðar frá, ættu að fylla út forskráningarform.
 
Staðfesting á skráningu verður send 7 dögum fyrir prófdag til allra nemenda.
Aðrir þátttakendur: Þið getið líka tekið æfingapróf til að sjá hvar þið standið! Hafið samband. www.af.is / S. 552 38 70
 

Ókeypis aðgangur að Fransk-íslenskri orðabók á netinu frá áramótum

 
Í kjölfar samnings við útgáfufyrirtækið Forlagið hefur Franska sendiráðið á Íslandi öðlast rétt til að veita aðgang að Fransk-íslenskri orðabók á netinu (Snara), sem á rætur sínar að rekja til orðabókar í prentuðu formi, sem út kom árið 1995.

Frá 1. janúar 2014 til 31. desember 2018 mun Alliance francaise því bjóða upp á ókeypis aðgang að þessu mikilvæga tæki fyrir Íslendinga sem eru að læra frönsku eða Frakka sem eru að læra íslensku. Á þessu fimm ára tímabili standa vonir til þess að hægt verði að þróa í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Islex fransk-íslenska og íslensk-franska orðabók, byggða á grunni þeirra 50 þúsund orða sem Islex hefur nú að geyma, með framburði á báðum tungumálunum (hljóðupptökum), dæmum og myndum.

Til þess að auka skilvirkni og tryggja meiri víxlverkun þessa tækis er ætlunin að bjóða samhliða upp á samskipta- og umræðuvettvang á netinu.

Sérstakt verkefni til undirbúnings þessarar nýju orðabókar hefst í byrjun næsta árs og mun standa í sex mánuði. Þá er markmiðið að byggja upp tengsl milli íslenskra háskóla og Sorbonne háskóla í París á þessu sviði.

Íslensk hönnun - "made in France"

 
Hönnunarsafn Íslands, sem staðsett er í Garðabæ, mun fljótlega bæta við tveimur nýjum verkum, sem íslenski listamaðurinn Dögg Guðmundsdóttir hannaði.

Um er að ræða hinn svokallaða Fifty stól (hannaður í samstarfi við Rikke Arnved) og teppið Star 8, sem munu verða sýnd á fyrirhugaðri sýningu Daggar frá mars til maí 2014.

Þessi tvö verk voru framleidd á vinnustofum franska fyrirtækisins Ligne Roset, en höfuðstöðvar þess eru í Briord (Ain) í héraðinu Rhône-Alpes. Fyrirtækið Roset færir listasafninu verkin að gjöf fyrir milligöngu Franska sendiráðsins á Íslandi.

Fransk-íslenskar fréttir

Franskir dagar í Smáralind fengu góðar viðtökur

Franskir dagar voru haldnir í Smáralind 1.-3. nóvember í samvinnu við Fransk-íslenska viðskiptaráðið. Ýmsir viðburðir vöktu athygli gesta, þar á meðal vínsmökkun skipulögð af Vínekrunni og Bakkusi, frönsk matargerðarlist og snyrtivörur, sem finna má í Hagkaup, ásamt tískusýningu á DIM sokkabuxum, innfluttum af Actacor. 

Þá var kynning á ferðamöguleikum í Frakklandi og vöktu þar mesta athygli ferðamennska í vínhéruðum, skíðaferðir og golfferðir.

Af öðrum viðburðum Franskra daga má nefna að hljómsveitin Belleville lék fyrir gesti og nýr markhópur kynntist Alliance française í gegnum leikinn
"teiknaðu fyrir mig Eiffel Turn", sem mörg börn tóku þátt í. Gestum gafst kostur á að taka þátt í happdrætti, sem sló í gegn. Fjórir vinningshafar hlutu ferð til Frakklands ( París og innanlandsflug), með Icelandair og Air France, gjafaöskju með snyrtivörum frá L'Oréal og frían aðgang að Eurodisney.

Efling vinabæjatengsla Grundarfjarðar og Paimpol – Grundapol

 
Sendinefnd frá Paimpol kom til Grundarfjarðar dagana 12. – 16. nóvember sl. í tilefni af menningarhátíðunum Rökkurdögum og Northern Waves. Þar á meðal var formaður vinabæjarfélagsins Grundapol og fulltrúi borgarstjórans í Paimpol, sem hefur umsjón með menningarmálum, arleifð og almannatengslum.

Í tengslum við vinabæjasamstarfið hefur verið samþykkt að vinna að þremur nýjum verkefnum:

- Hrint verði í framkvæmd áformum um gerð garðs frá Paimpol í Grundarfirði og íslensks garðs í Paimpol, með aðstoð garðyrkjuskólans í Saint-Brieuc.

- Möguleikar á skiptinámi verði auknir – Alliance française mun hefja frönskukennslu í fjarnámi í byrjun næsta árs.

- Unnið verði að undirbúningi tónleika Fransk-íslensku sinfóníuhljómsveitarinnar (FIFO), sem stefnt er að því að halda í Paimpol þann 13. febrúar næstkomandi, en helmingur tónlistarmannanna verður frá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Tveir íslenskir ráðherrar heimsækja Frakkland 

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsótti Frakkland 4. til 6. nóvember. Ásamt því að sitja aðalráðstefnu UNESCO, átti Illugi fund með Yaminu Benguigui, aðstoðarutanríkisráðherra Frakklands, sem m.a. ber ábyrgð á ræktun franskrar tungu á erlendum vettvangi. Meðal annars ræddu ráðherrarnir samstarf um netútgáfu fransk-íslenskrar  og íslensk-franskrar orðabókar. Þá átti Illugi líka fund með Lionel Tardy, formanni Íslandsvinafélags franska þingsins.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, var einnig á ferð í Frakklandi dagana 15. til 17. nóvember í tilefni af norrænni og baltneskri bókmenntahátíð
"Boréales" sem haldin var í borginni Caen ,en þar var Ísland í heiðurssessi. Gunnar Bragi átti jafnframt fundi með Elisabeth Guigou, formanni utanríkismálanefndar franska þingsins, og Lionel Tardy.

Samstarf HA og Háskóla Pierre og Marie Curie í París á sviði norðurslóðamálefna

 
Í maí 2012 var undirrituð viljayfirlýsing um samstarf milli Háskólans á Akureyri og Háskóla Pierre og Marie Curie í París (UPMC – sem starfar innan Sorbonne-háskólanna) á sviði málefna norðurslóða. Í framhaldi af þessu bauð prófessor Jean-Dominique Wahiche á Náttúruminjasafni Frakklands, sem starfar í tengslum við UPMC, upp á námskeið í umhverfislögfræði, sem endaði með prófi í heimskautarétti, sem boðið er upp á á meistarastigi við Háskólann á Akureyri. Prófessor Wahiche hélt fyrirlestur um lagalegar hliðar sjávarlíffræði og líftækni og tók þátt í hringborðsumræðum um hefðbundna þekkingu og arfleifð frumbyggjasamfélaga á norðurslóðum.

Prófessor Wahiche átti líka fund með Stefáni Sigurðssyni, rektor Háskólans á Akureyri, til að ræða möguleika á frekara samstarfi milli HA, UPMC og Náttúruminjasafnsins á sviði náttúru- og félagsvísinda. Meðal annars var rætt um möguleika ungra franskra fræðimanna á því að koma í vettvangsferðir til Íslands.

 

Sendiráðið tekur þátt í kynningu á námi erlendis í Háskóla Íslands

 
Eins og á hverju ári, tók Franska sendiráðið þátt í Alþjóðadegi Háskóla Íslands, þann 7. nóvember, til þess að hitta íslenska nema sem hafa áhuga á að læra í Frakklandi. Háskóli Íslands á í samstarfi við fimmtíu franskar stofnanir um æðri menntun: háskóla, tækniskóla, viðskiptaskóla, skóla um stjórnmál og stefnur, dreifða um allt Frakkland. Allar fræðigreinar eiga í hlut. Hefðbundnir Erasmus styrkir bæta við möguleikum og tilfallandi samstarfi. Árið 2014 mun Sendiráðið bæta undirbúning íslenskra nema sem hyggja á nám í Frakklandi. 
 
Að auki býður Franska sendiráðið á hverju ári íslenskum nemum 5 námsstyrki vegna meistara- eða doktorsnáms í Frakklandi.
 
Ekki hika við hafa samband við okkur til að fá frekari upplýsingar.
 
Gagnlegar slóðir:
www.ambafrance-is.org
 

Nýtt Menningar- og vísindaráð sendiráðsins leggur áherslu á fransk-íslenska samvinnu

Þann 27. nóvember var stofnað í sendiherrabústaðnum menningar- og vísindaráð sendiráðs Frakklands, í svipaðri mynd og Fransk-íslenska viðskiptaráðið. Þessi óformlegi vettvangur leiðir saman fimmtán listamenn og safnstjóra, háskólaprófessora, vísindamenn, frönskukennara og Alliance française. Í ráðinu eru Frakkar sem gegna mikilvægum stöðum eða frönskumælandi Íslendingar og velunnarar Frakklands með ýmsan bakgrunn.
Menningar- og vísindaráðið er hugsað sem vettvangur umræðu um þróun menningar- og vísindatengsla Frakklands og Íslands. Þátttakendur og sendiráðið skiptust á hugmyndum um og upplýsingum um fyrirhuguð verkefni og möguleika á frekari samvinnu. Marc Bouteiller sendiherra, kynnti breytingar á starfsemi sendiráðsins, meðal annars aukna starfsemi utan Reykjavíkur, fjölgun félaga í menningar- og vísindaráðinu og áhersluna á að vekja áhuga ungs fólks, sérstaklega til þess að læra frönsku. Þá ræddi sendiherrann um samspil menningar, sögu og viðskipta.

Í sviðsljósinu

Pierre - Alain Giraud

Kvikmyndagerðarmaður og   ljósmyndahönnuður.
Fyrrum menningar- og vísindafulltrúi í franska sendiráðinu á Íslandi.
 

Hvaðan kemur áhugi þinn á Íslandi?


Áhugi minn á Íslandi hefur alltaf byggst á einhvers konar dularfullum ímyndunarheimi tengdum náttúrunni. Og svo er það tónlistin,  Björk auðvitað og verk Gabríelu Friðriksdóttur. Ég var í starfsnámi,  í mikilli hitabylgju, í Nîmes eitt sumarið þegar byrjað var að sýna myndina Nói Albinói í bíó. Það greip mig sterk löngun til að fljúga strax til Íslands,  ég þráði hreint og ferskt loft.

Getur þú sagt okkur í stuttu máli hver þú ert og við hvað þú starfar ?
 

Mitt aðal starf tengist kvikmyndaheiminum. Ég er kvikmyndagerðamaður og ég sé líka um myndahönnun fyrir aðra. Í dag kem ég að fjölda verkefna á Íslandi  með Gabríelu Friðriksdóttur og Maríu Reyndal. Í Frakklandi er ég að vinna að gerð minnar fyrstu bíómyndar í fullri lengd ásamt teiknimyndaseríu með Guillaume Long.


Hvaða starfsreynslu hefur þú?
 

Ég byrjaði á því að afla mér verkfræðigráðu í Ecole Nationale Supérieure d'Arts et Métiers svo fór ég að vinna sem menningar-og vísindafulltrúi í Franska sendiráðinu á Íslandi. Að því loknu hóf ég nám að nýju í London Film School og lauk þaðan meistaragráðu fyrir næstum 3 árum.
Á Íslandi hef ég m.a. unnið með  Valgeiri Sigurðssyni og Bedroom Community að  heimildarmyndar og nokkrum tónleikamyndböndum. Það var fyrir tilstilli Valgeirs sem ég gerði mitt fyrsta grafíska myndband "Winter Sleep". Ég vann líka að grafísku myndbandi með Gabríelu Friðriksdóttur fyrir verk hennar Crepusculum, sem er nú sýnt á Biennale í Lyon. Ég hef líka starfað með  Maríu Reyndal, og ég hef ekki lengur tölu á þeim verkefnum sem við höfum unnið að saman. Hún fékk mig til að leika í leikritinu Best í Heimi á meðan ég bjó á Íslandi, sem var einmitt endursýnt í Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum vikum. Ég hef líka unnið með henni við kvikmyndir og einnig við leikritið Finnski Hesturinn, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu.
 

Hvað líkar þér best á Íslandi?
 

Vinir mínir. Og að keyra klukkustundum saman án þess að hafa nokkurn sérstakan áfangastað.
 

Hvað finnst þér um tónlistarlífið á Íslandi?
 

Það er ótrúlegur fjöldi hljómsveita og tónlistarmanna með mjög mikla breidd hvað varðar stíl. Þar af leiðandi er margt mjög gott og margt mjög slæmt... Bedroom Community hefur sterka sjálfsmynd og nær að vinna með bestu alþjóðlegu tónlistarmönnunum. Og svo er það Björk, sem mér finnst að að Íslendingar eigi mikið að þakka og sem hefur laðað hingað mörg stór nöfn, ekki einungis úr tónlistarheiminum.

 

Ef þú værir ekki að gera það sem þú ert að gera, hvað hefði þig langað að gera?
 

Ég hefði viljað vera fornleifafræðingur, en kvikmyndaheimurinn er mjög nálægur fornleifafræðinni !
Ég leik líka á klarinett og spila oft á  tónleikum með tveimur hljómsveitum Angil and the Hiddentracks og Michael Wookey.
 

Hvers saknarðu mest þegar þú ert á Íslandi?


Ég er búinn að hugsa mikið um það og hef reynt að finna eitthvað, en það kemur ekkert upp í hugann. Ég hef allt sem ég þarf þegar ég er á Íslandi.
 

Allur réttur áskilinn © 2013 Franska sendiráðið á Íslandi.Logo Ambassade de franceÁbyrgðarmaður: Luc Fuhrmann
Ritstjóri: Ragnhildur H. Lövdahl
Tölvupóstur: ambafrance@ambafrance-is.org
Heimasíða: www.ambafrance-is.org

Franska sendiráðið á Íslandi | Ambassade de France en Islande

likes
Á síðunni okkar finnurðu upplýsingar um viðburði sendiráðsins, menningu og mannlíf í Frakklandi, og hin fjölbreyttu tengsl landanna tveggja.
connect with me!