Copy
Upplýsingabréf um nám í Frakklandi: Október 2012 – n°3
Vefur sendiráðsins: ambafrance-is.org
 

Upplýsingabréf frá franska sendiráðinu
Október 2012 – n°3
Skiptinám í Frakklandi

Franska sendiráðið hefur áður sent frá sér tvö upplýsingabréf um nám í Frakklandi en stefnan er tekin á að birta nýtt skjal á hverri önn. Í fyrsta tölublaði var lögð fram nákvæm útlistun á franska námskerfinu. Í öðru tölublaði var ítarlegt yfirlit yfir námsleiðir í boði á ensku. Nú verður ljósinu varpað á samstarfsskóla íslenskra háskóla í Frakklandi. Fyrri bréf má finna á vefsíðu sendiráðsins eða með því að smella hlekkinn neðst í bréfinu. 

TILKYNNING: NÁMSSTYRKIR FRANSKA SENDIRÁÐSINS
Umsóknareyðublöð fáanleg á vefsíðu franska sendiráðsins ambafrance-is.org
í byrjun febrúar en umsóknarfrestur rennur út í maí 2013


 

1. Franska námskerfið: stutt kynning


Í upplýsingabréfi nr.1 var franska námskerfið kynnt til hlítar, með áherslu á umfjöllun um ólíkar námsleiðir og háskóla.  Til upprifjunar verður franska námskerfið kynnt stuttlega hér fyrir neðan.
 
*Almennt:
 
• Háskólar
Í Frakklandi eru áttatíu og þrír háskólar, sem nota „LMD” kerfið (Licence / Master / Doctorat):
- „Licence” (jafngildir Bachelor) er tekið á þremur árum. „Licence généraliste” er fyrir nemendur sem vilja stunda mastersnám, og „Licence professionnelle” fyrir þá sem vilja fara beint í vinnu.
- „Master” er lokið á 2 árum til viðbótar við Licence. Það er hægt að taka „Master professionnel” í faglegum tilgangi, eða „Master recherche” fyrir þá sem vilja vinna við rannsóknir.
- „Doctorat”, eða Doktorsnám, tekur u.þ.b. 3 ár til viðbótar við Master.
Skráningargjöld í háskóla eru ákveðin af stjórnvöldum: um 180 evrur fyrir „Licence” og 250 evrur fyrir „Master”

*Ólíkar gerðir skóla:
 
„Grandes écoles”
 „Grandes écoles” bjóða upp á fimm ára nám, viðurkennt af frönsku ríkisstjórninni og er jafngildi þess að ljúka mastersnámi.
 
Viðskiptaskólar
Það eru meira en 200 viðskiptaskólar í Frakklandi. Þeir bjóða upp á ýmis námskeið í hagfræði og stjórnun, og yfirleitt er starfsnám sem og fræðileg ungmennaskipti erlendis í boði.
 
Verkfræðiskólar
Það eru um það bil 250 verkfræðiskólar í Frakklandi. Um er að ræða bæði opinbera og einkarekna skóla sem eru annað hvort almennir eða sérhæfðir.
 
Aðrir skólar
Það eru alls fjórir Ecole Normale Superieure (ENS) í Frakklandi, en þeir veita kennsluréttindi á æðra menntunarstigi og kenna vísindi og rannsóknarvinnu.
 
Listaskólar og arkitektúrskólar
Í Frakklandi eru tuttugu og tveir arkitektúrskólar sem veita gráðu eftir þriggja eða fimm ára nám.
 
• Sérhæfð þjálfun
BTS og DUT eru tæknileg þjálfun til tveggja ára en í boði eru yfir 7000 námskeið.
 
*Samantekt


Í Frakklandi eru:

85  Opnir háskólar
250 Verkfræðiskólar
220 Viðskiptaháskólar
291 Ólíkar brautir í doktorsnámi
1,200 Opinberar rannsóknarstofur

Franska háskólakerfið: gráður og ECTS-einingar

Smellið á myndina til að stækka.

2. Skiptinám og Erasmus námsstyrkir


*Af hverju Skiptinám?
Skiptinám við erlendan háskóla er dýrmæt reynsla.  Með skiptinámi hljóta nemendur tækifæri til þess að miðla þekkingu sinni í alþjóðlegu umhverfi auk þess sem námið eykur víðsýni og skilning á menningarlegum fjölbreytileika og gefur innsýn í annan menningarheim. Námsmenn geta þannig öðlast mikilvægt forskot sem getur verið nytsamlegt þegar þátttaka í atvinnulífinu hefst.

*Erasmus skiptinámsprógrammið
Hægt er að sækja um Erasmus skiptinám við evrópska samstarfsskóla íslenskra háskóla en dvölin er að jafnaði 3-12 mánuðir. Þátttaka í námskeiðum við gestaskóla er síðan metin til eininga við heimkomu. Nemendur sækja um Erasmus styrk, sem samanstendur af ferðastyrk, að hámarki 650 evrur og dvalarstyrk, að hámarki 300 evrur á mánuði. Nám á öllum stigum háskólanáms er styrkt, allt frá námi í grunndeildum til framhalds- eða doktorsnáms, að því gefnu að viðkomandi deild námsmanns samþykki skiptinámið og að nemandi hafi þegar lokið ákveðnum fjölda eininga.

Á vefsíðunum erasm.us  og lme.is er að finna frekari upplýsingar um Erasmus skiptinám

3. Nám í Frakklandi:Listi yfir franska samstarfsskóla eftir íslenskum háskólum


*Samstarfsskólar Háskóla Íslands (72):
Alþjóðaskrifstofa/Alþjóðlegt samstarf
Listi samstarfsskóla eftir löndum

                 DÆMI:          
                *Université de Bourgogne (jarðfræði)
                 u-bourgogne.fr
                *Université des Sciences Sociales de Toulouse (hagfræði)
                  ut-capitole.fr
                *Université de Strasbourg (stjórnmálafræði)
                  unistra.fr

*Samstarfsskólar Háskólans í Reykjavík (12):
Alþjóðaskrifstofa/Alþjóðlegt samstarf

                 DÆMI:
                *ECE École de Commerce Europeenne (viðskiptafræði)
                  ece.inseec.com
                *Université Paris Diderot (tölvunarfræði)
                  univ-paris-diderot.fr

*Samstarfsskólar Háskólans á Bifröst (8): 
Alþjóðaskrifstofa/Alþjóðlegt samstarf

                DÆMI:
                *Groupe ESC Dijon Bourgogne (viðskiptafræði)
                  bsbu.com
              
  *Sciences Po Toulouse (félagsvísindi)
                  sciencespo-toulouse.fr

*Samstarfsskólar Háskólans á Akureyri (4):
Alþjóðaskrifstofa/Alþjóðlegt samstarf
 
                DÆMI:
                *Université Lumière Lyon 2 (félagsvísindi)
                  univ-lyon2.fr
                *Université de Nantes (auðlindafræði)
                  univ-nantes.fr
 
*Samstarfsskólar Listaháskóla Íslands (12):
Alþjóðaskrifstofa/Alþjóðlegt samstarf
 
                DÆMI:
                *École Régionale des Beaux-arts de Nantes (hönnun/myndlist)
                  erba-nantes.fr
                *École Nationale Supérieure d´Architecture de Montpellier (arkitektúr)
                  montpellier.archi.fr

*Samstarfsskólar Landbúnaðarháskóla Íslands (2):
Alþjóðaskrifstofa/Alþjóðlegt samstarf

                  DÆMI:                         
             * École Nationale Supérieure d´Architecture et de Paysage de Bordaux
             (landslagsarkitektúr)
                bordeaux.archi.fr

4. Gagnlegar vefsíður

                                                                                                
campusfrance.org (Leitarvél til að finna háskólanám og námsstyrki í Frakklandi)
fle.fr (Lærið frönsku í Frakklandi)
insee.fr (Hagfræði- og tölfræðistofnun Frakklands)
ambafrance-is.org (Námsstyrkir franska sendiráðsins á Íslandi)

5. Raddir nemenda: vitnisburðir námsmanna sem hafa stundað nám við franska gestaskóla

Reynslusögurnar má finna á vefsíðu Háskóla Íslands. Fleiri reynslusögur frá Frakklandi má finna hér.

*Université de Paris-Sorbonne (Paris IV)

Hvaða ráðleggingar myndir þú veita stúdentum sem væru að hugsa um skiptinám í þessum skóla?
 • Umsóknarferlið gengur vel fyrir sig hér heima á Íslandi en getur verið svolítið strembið þegar út er komið. Það getur verið erfitt að fá upplýsingar um námið, skráningu o.s.frv. En það er aðallega því maður kann ekki almennilega á franska kerfið. Lykillinn er bara að vera ákveðinn en þolinmóður.
 • Ég fór á 3.ár (licence 3) í listfræðideild Sorbonne Paris IV sem er mjög þungt ár þar sem verið er að undirbúa nemendur fyrir mastersstigið. Mér þótti verst að enginn heima sem ég sótti upplýsingar hjá fyrir skráningu og brottföt (kennarar í listfræðideildinnig og starfsfólk Alþjóðaskrifstofu) hafi vitað eða sagt mér að velja annað ár. Ég myndi því ekki mæla með því að nemendur skráðu sig á 3.ár úti í listfræðideildinni. Ráðamenn listfræðideildarinnar í Paris IV meta nefnilega þá erlendu nemendur sem koma til þeirra í skiptinám jafnt og frönsku nemendurnar, því þeir líta svo á að erlendu nemendurnir sem komi eigi að vera með nógu góða frönskukunnáttu (séu tækniega séð ekki að læra tungumálið) og bakgrunn til að stunda námið og taka ekki sérstakt tillit til þeirra. Án góðrar frönskukunnáttu er þetta næstum því ómögulegt.
 • Borgin er þó yndisleg og manni líður vel þar.
 • Varðandi samskipti við gestaskóla - þolinmæði. Þetta smellur allt saman á endanum.
Hefur þú einhverjar ráðleggingar varðandi menningalegan mismun heimalands/heimaskóla og gestalands/gestaskóla, t.d. hvað varðar mikilvægi tungumálakunnáttu?
 • Frakkar eru viðkunnanlegir og áhugasamir um Ísland og það er ekki erfitt að kynnast. Það er að sjálfsögðu besta þjálfunin í tungumálinu að tala við Frakka á þeirra eigin tungumáli.
 • Að erlendur einstaklingur tali tungumálið virðist hafa áhrif á viðmót innlendra gagnvart honum. Jákvæðara viðmót. Auk þess sem tungumálakunnáttan auðveldar fólki að tengjast og upplifa menningu tiltekins lands.
Hver var helsti munurinn á kennslu á milli gestaskólans og heimaskólans?
 • Fleiri en einn fyrirlesari í hverju fagi. Einu sinni viku aðal-fyrirlestur og síðan er nemendum skipt í smærri hópa sem allir sitja auka-fyrirlestra einu sinni í viku (oft annar kennari en sá sem sér um aðal-fyrirlesturinn).
 • Tungumálið, kennsluaðferðir og viðmót kennara gagnvart nemendum.
 • Í Paris IV eru fyrirlestrar megin uppistaða kennslunnar. Kennslan skiptist í fyrirlestra og vinnutíma. Kennarinn í vinnutímanum lætur nemendur gera verkefni (skrifleg verkefni eða fyrirlestur) en tímarnir eru í raun fyrirlestrar.
Hvað dettur þér í hug ef þú berð saman þær væntingar sem þú hafðir fyrir dvölina og síðan hvernig hún í raun varð? Náðir þú settum markmiðum? Komu upp einhver alvarleg vandamál? Hvað finnst þér þú hafa áunnið með dvölinni fyrir utan námið?
 • Náði settum markmiðum. Hef áunnið mikið varðandi eigin persónulega þroska, tungumálaþekkingu og reynslu.
 • Ég bjóst við að meira félagsstarf væri í skólanum sjálfum en sú varð ekki raunin. Ég kynntist aðallega fólki utan skólans og utan Erasmusprógrammsins. Ég náði þeim framförum sem ég sóttist eftir bæði tungumálalega séð og námslega séð. Mér finnst ég hafa lært mikið. Það hefur líka kostað mikla vinnu en er þess virði. Það er verst að vegna þess hve ólíkir skólarnir eru sem taka þátt í Erasmus er ekki alltaf auðvelt að meta það vinnu nemenda á milli kerfa. Ég er viss um að nemendur fá ekki vinnu sína metna til fulls.
 • Náði þeim markmiðum í tungumálanámi sem ég sóttist eftir.
Hvað metur þú mest við dvölina?
 • Tungumálakunnáttuna, reynsluna, tækifærið að fá að upplifa þetta, fólkið sem ég kynntist og að geta stundað nám við Sorbonne. 
 • Það er ómetanlegt að fá að búa og starfa í svo yndislegri borg sem París, að fá að kynnast hversdeginum þar, að læra tungumálið betur og kynnast fólkinu. Erasmusprógrammið gefur manni aukið tækifæri á að kynnast fólki frá öðrum löndum. Að auki er ómetanlegt að fá að kynnast starfsemi annarra háskóla og fá að vera hluti af því samfélagi sem það er. Það eykur áhugann á að fara utan í nám og gefur manni aukið sjálfstraust til þess að fara aftur utan í nám.
 • Þó svo að útskrift minni seinki sökum skiptinámsins þá var það vel þess virði. Ég mæli hiklaust með þessu. Það sem ég met mest við dvölina er reynslan í heild sinni, að búa erlendis, sækja nám í Sorbonne, aukin tungumálakunnátta og loks það að hafa kynnst svo mörgum frábærum einstaklingum.

*Université Lille 1 - Sciences et Technologies

Hvaða ráðleggingar myndir þú veita stúdentum sem væru að hugsa um skiptinám í þessum skóla?
 • Það borgar sig að vera tímanlega með öll atriði varðandi umsóknarferlið og námskeiðaval. Ekki treysta of mikið á hjálp frá gestaskólanum. Í Frakklandi gildir að kunna á kerfið til að fá sínu framgengt. Til að fá sem mest út úr dvölinni er gott að kunna frönsku ágætlega þegar farið er út.
Hefur þú einhverjar ráðleggingar varðandi menningalegan mismun heimalands/heimaskóla og gestalands/gestaskóla, t.d. hvað varðar mikilvægi tungumálakunnáttu?
 • Franskir nemar kunna ekki mörg tungumál og til þess að kynnast þeim þarf því að tala ágætis frönsku.
Hver var helsti munurinn á kennslu á milli gestaskólans og heimaskólans?
 • Ekki er mikið stuðst við kennslubækur í Frakklandi og því eru tímaglósur mjög mikilvægar.
Hvað dettur þér í hug ef þú berð saman þær væntingar sem þú hafðir fyrir dvölina og síðan hvernig hún í raun varð? Náðir þú settum markmiðum? Komu upp einhver alvarleg vandamál? Hvað finnst þér þú hafa áunnið með dvölinni fyrir utan námið?
 • Dvölin stóðst allar væntingar mínar og rúmlega það. Þessi reynsla jók sjálfsbjargarviðleitni mína og sjáfstæði.

6. Fyrri upplýsingabréf

Fyrri upplýsingarbréf franska sendiráðsins um nám í Frakklandi má finna hér (á vefsíðu franska sendiráðsins).
 
Einnig er hægt að skrá sig á póstlista með því að senda upplýsingar um netfang á veffangið iris.thorarinsdottir@diplomatie.gouv.fr
Allur réttur áskilinn © 2012 Franska sendiráðið á Íslandi.Logo Ambassade de france
Ritstjóri: Íris H. Þórarinsdóttir
Tölvupóstur: ambafrance@ambafrance-is.org
Heimasíða: www.ambafrance-is.org
Email Marketing Powered by Mailchimp