Copy
Fréttabréf franska sendiráðsins á Íslandi | 24. tbl. | Janúar  2014

 
Efnisyfirlit nýjasta tölublaðs Frétta úr sendiráðinu:
Kæru lesendur. Sendiráð Frakklands á Íslandi óskar ykkur gleðilegs nýárs.
 
Sendiráðið mun eins og hingað til leggja áherslu á margvíslega þjónustu fyrir franska borgara á Íslandi, bæði ferðamenn og þá sem hér eru búsettir, auk þess að leggja rækt við tengsl landanna tveggja. Megináhersluatriði í starfinu á árinu 2014 verða eftirfarandi:
 
Eins og undanfarin ár mun starfsárið hefjast á Franskri kvikmyndahátið, sem stendur frá 17. til 30. janúar. Níu myndir verða á dagskrá hátíðarinnar:
 
- Eyjafjallajökull eftir Alexandre Coffre, með Valérie Bonneton og Dany Boon,
- Les Garçons et Guillaume, à table! með Guillaume Gallienne og André Marcon,
- En solitaire eftir Cristophe Offenstein, með Francois Cluzet og Virginie Efira,
- La Vénus à la fourrure eftir Roman Polanski, með Emmanuelle Seigner og Mathieu Amalric,
- Le Tableau  eftir Jean-Francois Laguionie, með Jessica Monceau og Adrien Larmande,
- Couleur de peau: Miel  eftir Jung Sik-jun og Laurent Boileau, með William Conryn og Christelle Cornil 
- 38 témoins  eftir Lucas Belvaux, með Yvan Attal og Sophie Quinton.
Les Femmes du 6e étage eftir Philippe Le Guay, með Fabrice Luchini, Sandrine Kiberlain 
- Poupoupidou eftir Gérald Hustache-Mathieu, með Jean-Paul Rouve, Sophie Quinton 

 
 
Meðal nýmæla í tengslum við hátíðina má nefna nýtt merki hátíðarinnar, hannað af Jerôme Vadon, heimasíða þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um myndirnar á hátíðinni og hægt er að kaupa passa og einstaka miða, auk þess sem boðið verður  upp á sérstaka barnadagskrá á vegum Alliance française. Heimasíðan www.fff.is verður opnuð 8.janúar.


 
 
Tvennar kosningar verða haldnar samhliða þann 27. maí, annars vegar verður kosið til Evrópuþingsins og hins vegar í ný embætti conseillers consulaires. Sendiráðið mun að venju annast framkvæmd utankjörstaðakosningar hér á landi.
 
Af hinum pólitíska vettvangi má einnig nefna tvær heimsóknir; Yamina Benguigui, aðstoðarutanríkisráðherra, sem fer með málefni hins frönskumælandi heims, kemur í opinbera heimsókn í janúar og í júní mun vináttuhópur Íslands úr franska þinginu koma til landsins til að efla samskipti þjóðþinganna.
 
Þessar tvær heimsóknir tengjast tveimur mikilvægum atburðum í samskiptum Frakklands og Íslands; annars vegar vinnu við að bjóða upp á ókeypis aðgang að fransk-íslenskri og íslensk-franskri orðabók á netinu og hins vegar opnun safns til minningar um franska sjómenn í Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði.
 
Efnt verður til sýningar í sumar til minningar um rannsóknir Kerguelen flotaforingja við Ísland árin 1767 og 1768. Kerguelen er aðallega þekktur fyrir rannsóknarferðir sínar til Suðurskautslandsins, en rannsóknir hans við Ísland eru minna þekktar. Þær eru þó til vitnis um gömul tengsl milli landanna. Sýningin verður opnuð í Sjóminjasafninu í Reykjavík þann 7. júní, á sjómannadaginn, verður svo sett upp á Patreksfirði og loks á Fáskrúðsfirði á Frönskum dögum, sem þar eru haldnir í lok júlí. 
 
Margt verður um að vera á menningarsviðinu. Þar má meðal annars nefna sýningu leirlistamanna frá Limoges, sem sett verður upp hjá Alliance française á Safnanótt , sýningu málarans Francois Jouas-Poutrel; ”Le Mont Saint Michel a la maniere de…”, danssýninguna Rosa Candida með Pauline Maluski og Thomas Reigner á listahátíð í Reykjavík, sýning helguð rithöfundinum Michel Butor og listamanninum Bernard Alligand í Landsbókasafninu, tónleikar í Háskóla Íslands í mars þar sem kunnir íslenskir söngvarar flytja verk franskra höfunda og tónleikaferð Fransk-íslensku sinfóníuhljómsveitarinnar til Frakklands í apríl og byrjun maí, þar sem hljómsveitin mun koma fram með hinum alþjóðlega fílharmoníukór UNESCO á tónleikum í Paimpol og Gravelines.
 
Í tengslum við frönskukennslu á Íslandi má nefna, að á grundvelli viðhorfskönnunar meðal foreldra, bæði franskra og annarra, sem nú stendur yfir, verður metið hvernig standa skuli að grunnkennslu í frönsku. Þar er um að ræða samstarfsverkefni sendiráðsins, Alliance française, borgaryfirvalda, menntamálaráðuneytisins og þeirra stofnana í Frakklandi sem styðja frönskukennslu erlendis. Áfram verður haldið með frönskukennslu í Melaskóla í Reykjavík, en miðað við að opna kennsluna fyrir fleiri aldurshópa en til þessa. Að lokum má nefna að á vegum Alliance française og með stuðningi sendiráðsins verður frá og með næsta hausti boðið upp á fjarkennslu í frönsku á Patreksfirði og í fleiri bæjum.

Fransk-íslenskar fréttir

Fransk-líbanski leikstjórinn Jacques Debs á Íslandi

 
Fransk-líbanski kvikmyndaleikstjórinn Jacques Debs kom til Íslands í byrjun desember og tók þátt í tveimur viðburðum á vegum sendiráðsins og Alliance francaise. Þann 6. desember var efnt til samkomu í Bíó Paradís, þar sem sýndar voru tvær stuttar myndir leikstjórans um elstu söfnuði kristinna manna og var önnur þeirra tekin í Armeníu en hin á Indlandi. Sverrir Guðjónsson kontratenór syngur í báðum myndunum. Loks gafst gestum kostur á að ræða við leikstjórann.
Daginn eftir hélt Jacques Debs fyrirlestur á vegum Alliance française um samskipti og sambúð mismunandi trúarhópa í Miðausturlöndum.

Heimsókn Olivier Redoules, efnahagsráðgjafa

Olivier Redoules, efnahagsráðgjafi við sendiráðið í Stokkhólmi með Norðurlöndin sem starfssvæði, kom nýlega í sína fyrstu heimsókn til Íslands. Hann átti fundi um stöðu efnahagsmála hér á landi í forsætisráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu, Seðlabankanum og hjá skrifstofu sendinefndar ESB á Íslandi. Auk þessara stofnana tóku þátt í fundunum fulltrúar frá Íslandsbanka, Hagstofunni og samtökum launþega og vinnuveitenda. Meðal þess sem fjallað var um á fundunum voru fjárlagafrumvarpið fyrir 2014, horfur í efnahagsmálum og á fjármálamörkuðum, auk áforma stjórnvalda um aðgerðir til að takast á við skuldavanda heimilanna.

Heimsókn André Gattolin öldungadeildarþingmanns

 
André Gattolin, öldungadeildarþingmaður fyrir Hauts de Seine, kom í heimsókn til Íslands dagana 17. til 20. desember. Heimsóknin var liður í undirbúningsvinnu vegna stefnumörkunar í norðurslóðamálum, sem þingmaðurinn vinnur að fyrir hönd Evrópunefndar franska þingsins. Gattolin átti meðal annars fundi með forseta Íslands, formanni utanríkismálanefndar Alþingis, fulltrúum utanríkisráðuneytisins, fræðimönnum úr háskólasamfélaginu, hugveitum og fulltrúum atvinnulífsins.
 

Vísindasamstarf á sviði læknisfræði og norðurslóðarannsókna

 
Þann 9. desember var greint frá því að hin fransk-íslenska valnefnd vísindaáætlunarinnar Jules Verne hefði ákveðið að styðja sex samstarfsverkefni næstu tvö árin. Þar er um að ræða verkefni á sviði norðurslóðarannsókna, læknisfræði, verkfræði og stærðfræði. Valið er á grundvelli ýmissa sjónarmiða, meðal annars út frá þátttöku ungra vísindamanna, birtingu rannsóknarniðurstaðna og samevrópsku samhengi verkefnanna og/eða tengingum vísindamannanna. Að þessu sinni var fyrirfram kynnt að einkum yrði horft til náttúruvísinda annars vegar og norðurslóðamála hins vegar. Vonir standa til að tvö verkefni á sviði lífvísinda og læknisfræði geti skilað árangri fyrir iðnaðar- og atvinnuuppbyggingu og þriðja verkefnið geti leitt til stórrar alþjóðlegrar ráðstefnu í Reykjavík sumarið 2015.

Hægt er að sjá verkefnin sem valin voru á  www.ambafrance-is.org

Í sviðsljósinu

Zoé Lagarrigue


Franskur skiptinemi í framhaldsnámi á vegum Erasmus áætlunarinnar.

 

 
 

Hvað varð til þess að þú komst til Íslands?

 
Nám mitt hér er hluti af skiptinemaáætlun og þegar ég valdi mér skóla í fyrra varð Ísland fyrir valinu, ekki síst vegna þess að það er ekki dæmigerður áfangastaður stúdenta í þessum hugleiðingum. Ég vildi kannski skapa mér dálitla sérstöðu. Árið 2012 var Reykjavík líka valin ein af þeim borgum sem best væri að búa í og mig langaði til að kynnast henni af eigin raun. Aðrir þættir skiptu líka máli í sambandi við val mitt. Ég get nefnt bæði hið öfluga tónlistarlíf og fámennið. Mér fannst eftirsóknarvert að eiga þess kost að búa í höfuðborg, en vera á sama tíma í tengslum við daglegt líf íbúanna. Í því ljósi var Reykjavík góður kostur í samanburði við margar stærri borgir.
 

Hvað ertu að læra og hver eru framtíðaráform þín?

 
Ég er á fyrra ári meistaranáms í markaðsfræðum. Í augnablikinu finnst mér skipta máli að fara víða og sjá margt til að safna reynslu úr ólíkum áttum. Í markaðsfræði er mikilvægt að vera frumlegur og hafa auga fyrir því sem er sérstakt. Kynni af norrænni menningu og samfélagsgerð hafa á margan hátt opnað augu mín fyrir nýjum hlutum. Ég hef mikinn áhuga á því að afla mér starfsreynslu erlendis á næstu árum, annað hvort með starfsnámi eða einstökum verkefnum, en stefni svo að því að kenna markaðsfræði á háskólastigi.
 

Að hvaða leyti er ólíkt að vera námsmaður á Íslandi eða í Frakklandi?

 
Í Toulouse, þaðan sem ég kem, er mjög öflugt stúdentalíf. Á vegum skólanna eru haldnir fjöldamargir viðburðir,til dæmis alls konar samkvæmi, skíðaferðir, rugby-leikir, gala-böll og helgarferðir til að hrista hópinn saman. Eina skipulagða félagsstarfið sem ég hef kynnst hér er á vegum ESN – sem er félag Erasmus stúdenta hér á landi. Eini gallinn við það er að það hjálpar lítið til við að kynnast íslenskum stúdentum, það stuðlar frekar að því að erlendu stúdentarnir haldi sig meira og minna út af fyrir sig. Hins vegar lifnar Reykjavík við um helgar og það er mikið úrval af alls konar kaffihúsum og börum, þar sem boðið er upp á góða tónlist.
 
Háskóli Íslands kom mér á margan hátt þægilega á óvart. Það er mikið gert til að gera aðstæður þægilegar, sófar víða, góð matstofa og bar í kjallaranum, bókasafnið þægilegt og meira að segja boðið upp á smærri herbergi fyrir hópvinnu. Vinnuumhverfið er þannig mjög gott hér, að minnsta kosti samanborið við skólann í Toulouse, þar sem aðbúnaður og húsnæði er víða komið á tíma og þarfnast endurbóta.
 

Finnst þér íslenskir stúdentar lesa mikið – til dæmis Íslendingasögurnar?

 
Miðað við það sem ég hef kynnst í Háskóla Íslands þá lesa stúdentar talsvert, örugglega meiri hluti þeirra. Það fer samt að einhverju leyti eftir því hvaða námsbrautir þeir hafa valið sér. Flestir, sem ég hef talað við, segjast lesa talsvert sér til ánægju, en lesturinn tengist samt mest náminu. Fyrsta kennsludaginn í haust spurði einn kennarinn nemendurna hvort þeir læsu Íslendingasögurnar og teldu þær áreiðanlegar heimildir, en enginn rétti upp hönd.
 

Hvers saknar þú mest þegar þú ert hér á Íslandi?

 
Það fyrsta sem mér dettur í hug er auðvitað franski maturinn. Til dæmis pylsur og ostar, sem eru alltof dýrir hér. Það kom mér á óvart hve mikið af hilluplássi í matvörubúðunum er lagt undir alls konar skyndibita og ruslfæði. Á hinn bóginn er ekki hægt að alhæfa út frá því. Ég hef líka kynnst alls konar dæmigerðum íslenskum mat, sem er virkilega bragðgóður og um leið hollur og góður fyrir heilsuna.
Allur réttur áskilinn © 2014 Franska sendiráðið á Íslandi.Logo Ambassade de franceÁbyrgðarmaður: Luc Fuhrmann
Ritstjóri:  Ragnhildur H. Lövdahl
Tölvupóstur: ambafrance@ambafrance-is.org
Heimasíða: www.ambafrance-is.org

Franska sendiráðið á Íslandi | Ambassade de France en Islande

likes
Á síðunni okkar finnurðu upplýsingar um viðburði sendiráðsins, menningu og mannlíf í Frakklandi, og hin fjölbreyttu tengsl landanna tveggja.
connect with me!