Copy
Fréttabréf franska sendiráðsins á Íslandi | 11. tbl. | Nóvember 2012

Fransk-íslenskar fréttir

Michel Rocard

Michel Rocard fjallar um mikilvægi samstarfs um Norðurskautssvæðið

Michel Rocard, sérlegur sendimaður forseta Frakklands í málefnum heimsskautanna, var á Íslandi 9. og 10. október. Heimsóknina nýtti hann til að kynna Frakka sem eiga sæti í vinnuhópum Norðurskautsráðsins, þau Marie-Noelle Houssais og David Gremillet. Í Reykjavík hitti Michel Rocard fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og heimsótti Alþingi og ræddi við þá þingmenn er tengjast samstarfi um Norðurslóðamál. Í fyrirlestri í Háskóla Íslands fjallaði Rocard um mikilvægi alþjóðslegs samstarfs um málefni Norðurskautsins. Hann segir að í dag sé ekki til vettvangur til þátttöku fyrir þau ríki sem ekki eru strandríki Norðurskautsins. Samt eru í húfi hagsmunir miklu fleiri ríkja. [Lesa meira...]
Skoða myndir frá heimsókninni á Facebook
Eva Joly

Eva Joly gagnrýnir óhóf bankamanna

Föstudaginn 19. október síðastliðinn hélt Eva Joly, fyrrv. aðstoðarmaður sérstaks saksóknara og forsetaframbjóðandi í Frakklandi, fyrirlestur og bar erindi hennar yfirskriftina A critical look at the crisis in banking and finance. Hún gagnrýndi stranglega óhóf bankanna sem leika fjárhættuspil með svimandi háar upphæðir og sleppa við refsingu. Að mati Evu Joly hefur Evrópusambandið, þó ýmislegt megi gagnrýna við aðferðir þess, gert margt til að bæta ástandið í Evrópu, t.d. skrifað undir evrópska sáttmálann um fjármálastöðugleika, sett á fót evrópska stöðugleikasjóðinn, hafið ráðagerð um aðskilnað fjárfestingar- og inneignarstarfsemi banka og skatt á fjármálastarfsemi. Á heildina litið byggist endurreisn fjármálakerfis ESB-landanna á sameiginlegri stefnu í fjármálum og frekari miðstýringu.
(mynd Marie-Lan Nguyen/Wikimedia)

Drottningin af Montreuil hlýtur áhorfendaverðlaun RIFF 2012

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík eða RIFF var haldin frá 27. september til 7. október síðastliðinn. Franska sendiráðið og Alliance française í Reykjavík voru samstarfsaðilar þessa stærsta kvikmyndaviðburðar á Íslandi. Alls voru 13 kvikmyndir á RIFF framleiddar í Frakklandi eða í samvinnu við Frakkland. Meðal þeirra var opnunarmynd hátíðarinnar Queen of Montreuil í leikstjórn hinnar fransk-amerísk-íslensku Solveigar Anspach, sem hlaut hin eftirsóttu áhorfendaverðlaun RIFF. Alls 4000 áhorfendur tóku þátt í netkosningu en þetta er í fyrsta sinn í sögu RIFF sem verðlaunin fara til franskrar kvikmyndar.

Houllebecq kynnir Kortið og landið

Koma Michel Houllebecq til Íslands er viðburður út af fyrir sig, þar sem við vitum að hann er ekki mjög út á við og eyðir miklum tíma einn. Hann kom þó til Reykjavíkur til að kynna nýjasta verk sitt, Kortið og landið, sem vann til Goncourt-verðlaunanna árið 2010. Bókin hefur nú verið þýdd af Friðriki Rafnssyni og gefin út af Forlaginu. Houellebecq mætti á Kaffi Sólon til að spjalla um bókina og svara spurningum, og gerði það með miklum húmor og þægilegheitum. Gestirnir voru ánægðir og það mikilvægasta var að höfundurinn hvatti viðstadda til að lesa bókina.

Fleiri læra frönsku

Frönskukennslu Alliance française heldur áfram að vaxa ásmegin, en skrifað hefur verið undir nýja samstarfssamninga. Melaskóli mun bjóða upp á kennslu fyrir 4. bekk (9 ára) og leikskólinn Laufásborg fyrir 5 ára börn. Sú kennsla sem hefur verið aðlöguð sérstaklega að þessum aldri hefur gengið mjög vel. Að fordæmi utanríkisráðuneytisins hefur Ráðhús Reykjavíkur einnig valið að bjóða upp á frönskukennslu fyrir byrjendur, sem hentar þörfum starfsfólks þess. Alliance française annast kennsluna, en nú eru skráðir 15 áhugasamir þátttakendur frá Ráðhúsinu.

Stúdentar kynna sér nám í Frakklandi

Alþjóðadagur Háskóla Íslands var haldinn að nýju á Háskólatorgi, 11.október 2012. Forsvarsmenn franska sendiráðsins tóku að sjálfsögðu þátt, dreifðu upplýsingabæklingum um nám og sátu fyrir svörum. Mesta athygli vakti aukið námsframboð í Frakklandi sem fer fram á ensku. Sendiráð Frakklands býður íslenskum nemendum, sem hafa hug á að stunda nám í Frakklandi, ýmiskonar aðstoð og veitir til að mynda námsstyrki í nafni franska ríkisins á hverju ári. Umsóknareyðublöð vegna styrks má nálgast vefsíðu franska sendiráðsins í febrúar en umsóknarfrestur rennur út í maí 2013.
(mynd © HÍ)

Franski hluti FRÍS stofnaður

Fransk-íslenska viðskiptaráðið hefur hafið störf í Frakklandi, eftir að aðalfundur var haldinn í París þann 23. október síðastliðinn. Baldvin Haraldsson er nýr forseti ráðsins og Bryndís Philibert varaforseti/forseti franska hlutans. Í nýju stjórninni eru 8 meðlimir (þar af tveir varamenn), en meðal þeirra eru tveir fyrrverandi framkvæmdarstjórar ráðsins, fulltrúar franskra fyrirtækja, s.s. EDF og Gibaud, og íslenskra fyrirtækja, t.d. Marel og Icelandair. Fyrsti viðburðurinn á vegum ráðsins verður málþing sem mun bera titilinn „Ísland: nýtt efnahagslegt umhverfi, ný tækifæri“, en það verður haldið í París 28. febrúar 2013. Ráðgert er að þar taki þátt nokkrir Íslendingar. Upplýsingar og skráning í ráðið hjá Bryndísi Philibert.
(photo © icelandfirst.com)

Á döfinni

Bókaútgáfan Hachette með kynningu

Frönskukennarar á Íslandi takið eftir! Bókaútgáfan Hachette skipuleggur fyrstu heimsóknina til Íslands! Gabrielle Gazi hjá bókaútgáfunni Hachette hefur umsjón með nokkrum löndum og þar á meðal Íslandi. Hún verður með kynningu á efni útgáfunnar 5. og 6. nóvember næstkomandi í bókabúð Pennans við Laugaveg.

Menntun til sjálfbærrar þróunar, marghliða nálgun

Það er Landvernd og Franska sendiráðinu á Íslandi sönn ánægja að tilkynna komu Dr. Maryse Clary, sem hefur frá sjöunda áratugnum getið sér nafn sem sérfræðingur í málefnum menntunar í tengslum við umhverfisáhrif og sjálfbæra þróun. Dr. Clary, lektor við háskólann í Aix-Marseille í Frakklandi, mun fjalla um þá áskorun sem fylgir viðfangsefninu. Hún mun greina frá þróun verkefna sem hafa það að markmiði að þjálfa ungmenni í að öðlast þekkingu og færni sem auðveldar þeim í framtíðinni að lifa og hrærast í samræmi við markmið um sjálfbæra þróun samfélagsins. Dagsetning: Þriðjudagur 6. nóvember, kl. 14:30. Staður: Arion banki (salurinn Þingvellir) í Borgartúni 19.
Maryse Clary

Í sviðsljósinu

Baldvin Björn Haraldsson, lögfræðingur

Balvin var nýlega kosinn formaður fransk-íslenska viðskiptaráðsins. Hver er sýn hans á samskipti Frakka og Íslendinga?
Baldvin Björn Haraldsson

Þú starfar sem lögmaður á Íslandi og hefur einnig málflutningsréttindi í Frakklandi. Hefurðu reynslu af störfum sem lögmaður þar?

Reynsla mín af lögmannsstörfum í Frakklandi hefur í raun mest tengst störfum okkar hjá BBA fyrir franska viðskiptavini og skoðun á frönskum lögum í tengslum við slík verkefni. Við hjá BBA höfum passað okkur á að vinna ávallt með frönskum lögmannsstofum þegar kemur að því að veita ráðgjöf um frönsk lög, enda verður í þessum efnum að láta hagsmuni viðskiptavinarins hafa forgang.  Ég á enn eftir að flytja mál fyrir frönskum dómstólum en það er á dagskránni og vonandi gefst tækifæri til þess áður en langt um líður.
 

Er iðkun laga og umhverfið mjög ólíkt því íslenska?

Lagaumhverfið í Frakklandi er að mörgu leyti ólíkt því sem við eigum að venjast hér á Íslandi, sérstaklega þegar kemur að málum sem tengjast vinnurétti og stjórnsýslurétti.  Þó má segja að þátttaka Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu hafi lagað löggjöf að einhverju leyti að því sem gerist innan Evrópusambandsins, þmt. í Frakklandi.
 

Í hverju felast helst tækifæri þegar kemur að því að þjónusta frönskumælandi fólk á Íslandi, í þinni grein, og jafnvel öðrum greinum, að þínu mati?

Ég myndi segja að það felist ávallt tækifæri í því að geta átt samskipti við fólk í öðrum ríkjum, á þeirra eigin tungumáli. Það opnar ýmsar leiðir og einfaldar samskipti.  Okkar samskipti við franska aðila hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár, þar sem nokkrir starfsmenn okkar tala frönsku og að hjá okkur starfar franskur lögfræðingur, Antoine Lochet, sem hefur náð fullkomnu valdi á íslensku og er orðinn lögmaður fyrir íslenskum dómstólum.  Það skiptir líka miklu máli um þessar mundir að draga erlenda fjárfestingu til Íslands og við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim efnum. Ég vona að endurreisn Fransk-íslenska viðskiptaráðsins geti haft jákvæð áhrif á erlenda fjárfestingu.
 

Áttu þér uppáhaldsstað í Frakklandi? En á Íslandi?

Ég held að uppáhaldsstaðurinn minn í Frakklandi um þessar mundir sé Rue de Buci í 6. hverfinu í París.  Þar er alltaf líf og fjör, mannmergð alla daga og fjöldi veitingastaða.  Honfleur í Normandí er einnig gríðarlega flottur bær og í nokkru uppáhaldi hjá mér.  Reyndar er einn staður í Frakklandi sem ég held að ég gæti hrifist mjög af, en á eftir að heimsækja.  Þetta er bærinn Bandol í Suður-Frakklandi.  Staðsetningin er frábær, þar er framleitt afskaplega gott vín og golfvöllur er rétt við bæinn.  Ég hlakka til að sjá hvort þessi bær stendur undir gríðarlegum væntingum mínum.  Á Íslandi held ég hreinlega að heimilið mitt sé uppáhalds staðurinn minn.  Þar líður mér best.
 

Ef Íslendingar gætu lært eitthvað af Frökkum, hvað væri það helst?

Íslendingar gætu helst lært af Frökkum að taka þátt í rökræðum án þess að telja að um illdeilur sé að ræða.  Það er öllum hollt að taka reglulega þátt í rökræðum og að taka jafnvel afstöðu í rökræðunum sem er ekki í samræmi við eigin sannfæringu.
 

En Frakkar af Íslendingum?

Frakkar gætu helst lært af Íslendingum að vera óformlegri í framkomu og leggja minna uppúr stöðu manna í samfélaginu í samskiptum fólks.
 

Hvað ertu að lesa þessa dagana?

Ég get nú ekki sagt að ég hafi lesið miklar bókmenntir að undanförnu, en undantekning varð á því nú á dögunum þar sem ég var í fríi og las Útlendinginn eftir Albert Camus sem gefin er út af stofnun Vigdísar Finnbogadóttur á bæði frönsku og íslensku í sama riti.  Annars hef ég verið að lesa léttar spennubókmenntir en það hefur gengið illa hjá mér að lesa mikið að undanförnu.  Mig langar mest að komast í ævisögu Mick Jagger eftir Christopher Andersen og stefni að því að ná mér í þá bók á næstunni.
Allur réttur áskilinn © 2012 Franska sendiráðið á Íslandi.Logo Ambassade de franceÁbyrgðarmaður: Luc Fuhrmann
Ritstjóri: Martin Leifsson
Tölvupóstur: ambafrance@ambafrance-is.org
Heimasíða: www.ambafrance-is.org

Franska sendiráðið á Íslandi | Ambassade de France en Islande

likes
Á síðunni okkar finnurðu upplýsingar um viðburði sendiráðsins, menningu og mannlíf í Frakklandi, og hin fjölbreyttu tengsl landanna tveggja.
connect with me!