Copy
Fréttabréf franska sendiráðsins á Íslandi | 29. tbl. | Júní 2014

Á döfinni

Fjölmenn sendinefnd Frakka á Arctic Circle

Annað þing Hringborðs norðurslóða (Arctic Circle) kemur saman í Reykjavík frá 31. október til 2. nóvember. Á þinginu verður kastljósi beint að Frakklandi ásamt Japan og Finnlandi og fær hvert þessara landa sérstakan fund til að fjalla um málefni tengd norðurslóðum. Michel Rocard, sendiherra heimskautasvæðanna, verður í forsvari fyrir frönsku sendinefndinni. Sendinefndin verður skipuð einum tíu fulltrúum sem skiptast þannig:
- 1/3 úr hópi vísindamanna,
- 1/3 frá ráðuneytum,
- 1/3 frá frönskum fyrirtækjum.
 

Fransk-íslenskar fréttir

Lífleg viðskipti Frakka og Íslendinga

Fyrstu sex mánuði þessa árs jukust vöruskipti Frakka og Íslendinga, samkvæmt tollyfirlitum í Frakklandi, um nálega 24%, borið saman við sömu mánuði 2013:

- Útflutningur frá Frakklandi til Íslands jókst um 20,6%, aðallega vegna mikillar sölu á frönskum bílum (79,9% aukning) og velgengni ýmissa tækjaframleiðenda (einkum iðnaðar- og landbúnaðarvéla) og landbúnaðarafurða (18% aukning).

- Innflutningur á íslenskum vörum til Frakklands jókst um 25,7% á núvirði. Heildarinnflutningur íslenskra afurða í Frakklandi nam 103 milljónum evra á fyrri helmingi ársins 2014, sem er met. Aðallega var um að ræða sjávarafurðir (58 milljónir evra) og ál (35 milljónir evra eða 132% aukning).
 

Frönskum ferðamönnum á Íslandi fjölgar um 16% árið 2014

Meira en 700.000 erlendir ferðamenn sóttu Ísland heim frá janúar til ágúst 2014. Samkvæmt yfirliti Ferðamálastofu er hlutfall franskra ferðamanna 6,6% fyrstu átta mánuði ársins (46.464) og er þar um að ræða 16% fjölgun frá 2013.

Fjöldi franskra ferðamanna á Íslandi eftir mánuðum, frá janúar til ágúst 2013 og 2014.

Tölur frá Ferðamálastofu í september 2014.

Reykjavíkurheimsókn Christians Cardons, bæjarstjóra Trouville-sur-Mer

Sendiráð Frakka bauð, í samvinnu við Evrópustofu, Christian Cardon, bæjarstjóra í Trouville-sur-Mer, til Íslands til að kynna sameiginlega fiskveiðistefnu ESB frá sjónarhóli bæjarstjóra í frönskum útgerðarbæ. Cardon flutti fyrirlestur um þetta efni í Háskóla Íslands.

Þetta var fyrsta Íslandsheimsókn Cardons og í ferðinni ræddi hann við forstjóra Hafró og ýmsa samstarfsmenn framkvæmdastjóra LÍÚ. Í framhaldi af heimsókninni hingað hefur Cardon látið í ljós áhuga á að efna til samskipta milli forsvarsmanna í sjávarútvegi í heimabæ sínum og íslenskra starfsbræðra þeirra.

Michel Zink gerir miðaldabókmenntum skil í Háskóla Íslands

Hugvísindastofnun Háskóla Íslands bauð Michel Zink, prófessor við Collège de France, að halda opinn fyrirlestur við skólann. Zink fjallaði um samband aðalpersónanna í verki Chrétiens frá Troyes í fyrirlestri sem bar heitið Sense and Sensuality in Erec et Enide. Fyrirlesturinn var fluttur í Hátíðasal Háskólans að viðstöddum áheyrendum sem sumir voru þaulkunnugir ljóðagerð á miðöldum en aðrir nýgræðingar í fræðunum.

Zink er franskur textafræðingur og sérfróður um franskar miðaldabókmenntir. Hann var ákaflega ánægður með heimsóknina til Íslands sem hann sagði að væri eitt af fáum löndum þar sem bókmenntir væru í hávegum hafðar.

Heimsókn Gilles Cunibertis, prófessors í samanburðarlögfræði við Háskólann í Lúxemborg.

Gilles Cuniberti lauk námi frá Sorbonne og Yale og er prófessor við Háskólann í Lúxemborg. Hann hélt fyrirlestra um samanburðarlögfræði í Reykjavík 22. – 24. september síðastliðinn. Cuniberti var hér á vegum sendiráðsins, BBA lögfræðistofunnar og Evrópustofu.

Í fyrirlestrunum fjallaði hann einkum um tvenns konar lagabætur sem gætu skipt máli fyrir Íslendinga. Annars vegar reglur um gerðardóma og hins vegar einkamálarétt. Cuniberti hefur verið ritari í vinnuhópi á vegum UNIDROIT og með þá reynslu að baki gat hann gert skilmerkilega grein fyrir vinnulaginu við samræmingu laga sem nú er unnið að á vegum ESB. Hann bar saman með dæmum hefðarrétt og Rómarrétt og var mikill áhugi á efninu meðal íslenskra lögfræðinga. Spunnust upp úr þessu líflegar og fræðandi umræður um íslensk lög og lagaframkvæmd.

Fréttir af Alliance française

Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri AFA JCDecaux í Reykjavík, hefur verið útnefndur nýr forseti félagsins. Hann var kjörinn á stjórnarfundi þann 12. september síðastliðinn og tekur við af Guðlaugu Matthildi Jakobsdóttur sem setið hefur eitt kjörtímabil, tvö ár. Hún baðst undan endurkjöri þar sem hún hefur hlotið framgang í Háskólanum í Reykjavík.

Þá var Sophie Froment (mannauðsstjóri hjá CCP, móðir nemenda hjá Alliance française og virk í félagsstarfinu) kosin í stjórnina á aðalfundi félagsins í júní síðastliðnum.

Nýjar námsskrár Alliance française má nálgast á síðu www.af.is.

Þekkingarsetrið í Sandgerði fær áttavita Charcots að gjöf

Þess er minnst 16. september ár hvert að þann dag árið 1936 steytti franska rannsóknaskipið Pourquoi Pas? á skerjum undan Mýrum í Borgarfirði í miklu óveðri. Skipið liðaðist í sundur og Jean-Baptiste Charcot skipherra, sem var heimsfrægur fyrir vísindastörf sín, drukknaði með 39 skipverjum. Einn komst af.

Marc Bouteiller, sendiherra Frakka á Íslandi, valdi þennan dag til að afhenda Þekkingarsetrinu í Sandgerði lítinn áttavita sem Charcot bar alltaf á sér í vísindaleiðöngrum sínum. Það var barnabarn Charcots sem færði sendiherranum áttavitann. Safnið í Sandgerði hýsir sýninguna Heimskautin heilla sem tileinkuð er Charcot. Þar verður áttavitanum komið fyrir meðal annarra muna sem tengjast Charcot.

Alþjóðadagur Háskólans í Reykjavík 2014

Alþjóðadagur Háskólans í Reykjavík var haldinn 4. september síðastliðinn. Á viðburðinum voru saman komnir erlendir nemendur skólans og starfsfólk frá erlendum sendiráðum og samtökum til þess að vekja athygli á skipti- eða framhaldsnámi á erlendri grundu, sem og til að varpa ljósi á ólíka menningarheima. Nemendurnir komu með ýmsa gómsæta smárétti frá heimalöndunum til smökkunar og franska sendiráðið tók þátt í kynningarstarfseminni með fræðslu um námskerfið í Frakklandi.

Myndin hér að neðan er frá alþjóðadeginum.
 

Nýmæli í sendiráðinu

Nýr sendiherra tekur við á Íslandi

Nýr sendiherra Frakka á Íslandi, Philippe O'Quin, er væntanlegur til Reykjavíkur 6. október næstkomandi.

O'Quin lauk námi frá Institut d'Etudes politiques í París og frá Ecole nationale de l'Administration. Hann er líka með licencegráðu í sögu og aðra í opinberum rétti. Hann var yfirmaður hagfræðideildar sendiráðs Frakka í Madrid (2010-2014), efnahagsráðunautur fastanefndar Frakka hjá ESB í Brussel (mars 2006-2010) og yfirmaður skrifstofu efnahagsmála í sendiráðinu í London (1998-2006). Þá hefur hann starfað í fjármálaráðuneytinu í París og einnig í New-York og Búdapest.

Áður en O'Quin hélt frá París hitti hann forvera sinn, Marc Bouteiller, og gat fræðst af honum um íslensk málefni sem mun vafalítið koma í góðar þarfir í störfunum á Íslandi.

Í sviðsljósinu

Arnór Bohic

Eigandi Le Bistro

Segðu okkur deili á sjálfum þér.

Ég er fæddur 1976 í Vernon í Frakklandi. Faðir minn, Stanislas Bohic, var franskur. Hann lést fyrir tæpum tveimur árum og er sárt saknað. Móðir mín, Erla Magnúsdóttir, er íslensk. Ég á einn bróður, Friðrik Bohic. Foreldrar mínir bjuggu fyrstu sex árin í Frakklandi en fluttust til Íslands 1978. Ég var þá tveggja og hálfs árs og mér hefur verið sagt að fyrstu þrjá mánuðina eftir umskiptin hafi ég ekki talað mikið en á móti verið brosmildur og íhugull.
Ég kynntist konunni minni, Paolu Cardenas, eftir nám í „École hotelière de Lausanne“ í Sviss. Hún á ættir að rekja til Kólombíu, Síle og eitthvert ítalskt blóð er þarna líka, þannig að drengirnir okkar tveir, 6 og 3 ára, eru vel blandaðir. Svo á ég líka ljúfa fósturdóttur 12 ára.
 

Heldurðu ennþá sambandi við Frakkland?

Já, ég hef gert það. Þegar foreldrar mínir fluttust hingað var til vísir að lítilli franskri „nýlendu“ sem stækkaði fljótt og sem krunkaði sig saman við öll möguleg tilefni. Þetta voru að mestu franskir menn giftir íslenskum konum með börn og annað í bland sem tilheyrði þessum hópi. Foreldrar mínir og hluti af þessum vinum þeirra voru persónulegir vinir sendiherrahjónanna Jacques og Jacqueline Mer. Þau voru bæði áhugaverð og skemmtileg og sýndu menningu beggja landa mikinn áhuga. Ég og bróðir minn vorum fengnir til að þjóna í móttökum þeirra og var það fínn vasapeningur fyrir okkur. Dominique Poulain, leikbrúðu- og grímugerðarkona, setti á fót nokkurs konar skóla fyrir frönskumælandi krakka sem ég sótti og var þetta skemmtilegur og skapandi tími. Svo var að sjálfsögðu farið reglulega í heimsókn til afa og ömmu í Frakklandi í bænum Meaux rétt hjá París, þar sem stórfjölskyldan hittist og franskir vinir voru heimsóttir.


Hvernig kom það til að þú opnaðir Le Bistro og eru frönsk áhrif einráð í matreiðslunni?

Ég vann með skóla, eins og unga fólkið gerir í dag, og eftir stúdentspróf vann ég á ýmsum veitingastöðum og veitti nokkrum þeirra forstöðu með góðum árangri. Eitt leiðir af öðru svo ég ákvað að lokum að fara í nám til Sviss í virtan háskóla, École Hotelière de Lausanne (EHL). Þar tók ég BS-gráðu í „hospitality management“ (atlætisstjórnun) með áherslu á markaðssetningu. Að efna til samkomu, sem gengur upp og allir fara glaðir heim... þar er ég í essinu mínu! Le Bistro kemur í framhaldi af þessu. Mig langaði að búa til stað með franskan karakter. Þetta afslappaða andrúmsloft, þar sem fólk hittist og spjallar, hlustar til dæmis á franskan vísnasöng, fær sér gott að borða á viðráðanlegu verði og allir hressir...
Matreiðslumennirnir, sem við höfum ráðið til okkar frá Frakklandi, eru allir franskir og ber matseðillinn keim af því. Okkur hefur líka verið hrósað fyrir hversu vel okkur hefur tekist að búa til franska stemmingu með innréttingunni á staðnum.  En við höfum líka séríslenska rétti til að bjóða forvitnum ferðamönnum sem eru stór hluti af okkar kúnnahópi.
 

Hvernig gengur að reka veitingahús í Reykjavík og hvað þarf til að standast samkeppnina?

Nú er stórt spurt! Til að lifa af samkeppnina þarf að hafa sérstöðu á markaðnum, góða staðsetningu og stöðugleika. Við teljum okkur hafa þessa eiginleika á Le Bistro þó að sjálfsögðu þurfum við ávallt að bæta okkur og gæta þess að sofna ekki á verðinum. En það nægir ekki eitt og sér til að halda vinsældum. Eigendur, matreiðslumenn og þjónustufólk þurfa að vera „á tánum“ alla stund, vakandi yfir því að kúnninn fari ánægður út og komi aftur og helst sem oftast. Ef þessum þætti er ekki sinnt fara þeir bara annað því nóg er af stöðunum. Að þessu sögðu og ef allir vinna í sama teymi, þá gengur það bara þokkalega að reka veitingastað í Reykjavík, svo er fyrir að þakka innreið ferðamanna til Íslands.
 

Hvað gerirðu í tómstundunum þínum?

Við hjónin erum bæði útivinnandi í krefjandi störfum og með börn heima svo tómstundir eru fáar sem stendur. Þegar þær gefast er farið í líkamsrækt, sundi, borðað með vinum en þegar ég er í sérstökum ham þá fæ ég útrás á trommusettinu, sem bíður mín í bílskúrnum. Svo hef ég starað á golfsettið í nokkra mánuði og spurt mig hvenar maður fær tíma í að slá nokkrar holur.
Allur réttur áskilinn © 2014 Franska sendiráðið á Íslandi.Logo Ambassade de franceÁbyrgðarmaður: Gaëlle Hourriez-Bolâtre
Ritstjóri:  Pálmi jóhannesson
Tölvupóstur: ambafrance@ambafrance-is.org
Heimasíða: www.ambafrance-is.org

Franska sendiráðið á Íslandi | Ambassade de France en Islande

likes
Á síðunni okkar finnurðu upplýsingar um viðburði sendiráðsins, menningu og mannlíf í Frakklandi, og hin fjölbreyttu tengsl landanna tveggja.
connect with me!