Þann 1. desember sl. tók gildi gjaldskrá um þjónustu Þjóðskjalasafns Íslands. Með gjaldskránni hefur Þjóðskjalasafn nú heimild til að taka gjald fyrir tiltekna þjónustu og byggir gjaldskráin á heimild í lögum nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn og reglugerð nr. 1236/2021 um gjaldskrá Þjóðskjalasafns.
Gagnvart afhendingarskyldum aðilum mun Þjóðskjalasafn taka gjald fyrir varðveislu pappírsskjala sem eru yngri en 30 ára gömul. Með gjaldinu getur safnið því mætt kostnaði sem til fellur við varðveislu yngri pappírsskjala þar til þau hafa náð 30 ára aldri en almennt eiga afhendingarskyldir aðilar að varðveita pappírsskjöl þar til þau hafa náð þessum aldri. Því er nú möguleiki að Þjóðskjalasafn taki við yngri pappírsskjölum til varðveislu í einstökum tilvikum ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um opinber skjalasöfn. Vörslugjald fyrir skjöl yngri en 30 ára gömul er greitt árlega samkvæmt samningi sem gerður er við hvern afhendingarskyldan aðila. Athygli er vakin á því að vörslukostnaður fyrir pappírsskjöl sem eru yngri en 30 ára frá afhendingarskyldum aðilum sem hafa verið lagðir niður skal greiddur af því ráðuneyti eða sveitarfélagi sem viðkomandi aðili heyrði undir.
Þá munu sveitarfélög sem afhenda skjöl til varðveislu á Þjóðskjalasafn ávallt greiða fyrir varðveislu gagnanna óháð aldri þeirra. Einnig munu skiptastjórar þrotabúa greiða fyrir varðveislu skjala þrotabúa í sjö ár frá skiptalokum og fyrir eyðingu þeirra að varðveislutíma loknum. Vörslugjald þrotabúa greiðst í einu lagi fyrir sjö ár frá skiptalokum þegar safnið er afhent Þjóðskjalasafni til vörslu.
Einnig er Þjóðskjalasafni heimilt að taka gjald fyrir móttöku, frágang og flutning skjalasafna afhendingarskylds aðila sem hefur hætt starfsemi eða verið lagður niður.
Gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands má finna hér: Gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands
Frétt á vef Þjóðskjalasafns Íslands um gjaldskrána
|