Copy
4. tbl. 21. apríl 2023

Tilmæli um rafrænar undirskriftir 

Þjóðskjalasafn Íslands hefur móttekið og afgreitt talsvert af grisjunarbeiðnum á skjölum sem eru prentuð út úr rafrænu gagnasafni, undirrituð með eigin hendi og skönnuð aftur inn til varðveislu í rafrænu gagnasafni. Stefna ríkisins til framtíðar kallar á það að afhendingarskyldir aðilar dragi úr varðveislu á skjölum á pappír eins mikið og hægt er og nýti þannig rafrænar lausnir til að mynda og varðveita skjöl sín.  

Þjóðskjalasafn Íslands beinir þeim tilmælum til afhendingarskyldra aðila að sjá til þess að skjöl sem eru mynduð rafrænt verði varðveitt rafrænt til frambúðar. Til að ná því markmiði þurfa afhendingarskyldir aðilar að tilkynna rafræn gagnasöfn sín  og fá úr því skorið hvort afhenda eigi það í vörsluútgáfu samkvæmt settum reglum. Þar að auki ættu afhendingarskyldir aðilar að taka í notkun rafræna undirskrift  við formlega undirskrift skjala í starfsemi sinni. Í 38. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er t.a.m. kveðið á um að „Þegar sett lög, almenn stjórnvaldsfyrirmæli eða venjur áskilja að gögn frá aðila eða stjórnvaldi séu undirrituð er stjórnvaldi heimilt að ákveða að rafræn undirskrift komi í stað eiginhandarundirskriftar, enda tryggi rafræna undirskriftin með sambærilegum hætti og eiginhandarundirskrift persónulega staðfestingu þess sem gögnin stafa frá“.  Það verður þó að taka fram að einnig er kveðið á um að „Fullgild rafræn undirskrift … skal ætíð teljast fullnægja áskilnaði laga um undirskrift.“ 

Úthverfar öskjur

Nokkuð hefur borið á því undanfarið að skjalasöfn hafa borist Þjóðskjalasafni í „úthverfum öskjum“. Öskjur frá Klug-Conservation, sem meðal annars eru seldar hjá Hvítlist og Þjóðskjalasafn seldi áður, eru hvítar öðru megin og gráar hinu megin. Ólíkt Homeblest kexi þá eru þær ekki alveg jafn góðar báðu megin, heldur ætti að brjóta þær saman þannig að gráa hliðin verður utan á og sú hvíta innan á. Ef það er búið að ganga frá skjölum í mikið magn af úthverfum öskjum nú þegar gerir Þjóðskjalasafn ekki kröfu um að þeim verði snúið við. En hafa skal það í huga framvegis að gráa hliðin snýr út, sú hvíta inn. 

Spurt og svarað: 
Má gera margar færslur fyrir hverja örk?

Við skráningu pappírsskjalasafna er tekið mið af reglum nr. 573/2015 um frágang, skráningu og afhendingu pappírsskjala afhendingarskyldra aðila sem og alþjóðlega staðalinn ISAD(g). Í reglunum er tekið fram að skrá skuli hverja örk sem sérfærslu í geymsluskrá. Aðeins er heimilt að gera eina færslu fyrir hverja örk í geymsluskrá. Í efnisinnihaldi ætti að taka fram allt sem í örkinni er, í einni færslu. Ef þeim sem gengur frá finnst þurfa að aðgreina málin frekar ætti að skipta málinu upp í fleiri arkir en ekki búa til fleiri færslur með sama arkarnúmeri.
Vertu vinur okkar á Facebook Vertu vinur okkar á Facebook
Vefur Þjóðskjalasafns Vefur Þjóðskjalasafns
Þjóðskjalasafn Íslands © 2022 Þjóðskjalasafn Íslands, Allur réttur áskilinn.

Uppfæra upplýsingar um áskrift     Hætta í áskrift.