Nýr fagstjóri fageiningarinnar Gagnaskila og eftirlits, Guðbjörg Jóhannsdóttir, hefur nú tekið til starfa hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Áhersluatriði Gagnaskila og eftirlits eru fagmennska, skilgreint verklag og traust vinnubrögð. Þessum áhersluatriðum verður fylgt eftir með þekktum ferlum og árangursríku samstarfi og samskiptum við samstarfsaðila. Byggt verður upp öflugt þjónustuver sem sinnir ráðgjöf,þjónustu og leiðbeinandi eftirliti fyrir alla hagsmunaaðila.
Helstu verkefni fageiningarinnar eru móttaka á afhendingarskyldum gögnum, bæði á pappír og í rafrænu formi í vörsluútgáfum, að veita ráðgjöf og leiðbeiningar á sviði skjalamála, hafa eftirlit með afhendingarskyldum aðilum og sinna langtímavarðveislu og aðgengi gagna.
Fagstjóri Gagnaskila og eftirlits leiðir jafnframt tæknilega umbreytingu hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Breytingin snýr að móttöku gagna, skráningu, varðveislu og miðlun á upplýsingum úr afhendingarskyldum gögnum í samræmi við hlutverk og lagalegar skyldur Þjóðskjalasafns Íslands. Tæknileg umbreyting Þjóðskjalasafns Íslands er mikilvæg eining í stafrænni umbreytingu sem á sér stað og er liður í auknum stuðningi við afhendingarskilaskylda aðila.
|