Copy
Fréttabréf menntahluta ERASMUS+
Skoða þennan póst í vafra

Mikil ásókn í Erasmus+ styrki

Umsóknarfrestum fyrir menntahluta Erasmus+ áætlunarinnar 2015 er lokið. Alls komu 72 gildar umsóknir í flokkinn Nám og þjálfun og 27 gildar umsóknir í flokkinn Samstarfsverkefni – samtals 99 umsóknir.

Sótt var um rúmlega 5,6 milljónir evra í flokkinn Nám og þjálfun og rúmlega 5 milljónir evra til Samtarfsverkefna. Samtals var sótt um yfir 10 milljónir evra í þessa tvo flokka, eða um einn og hálfan milljarð íslenskra króna, sem er töluverð aukning frá árinu 2014. Fyrir árið 2015 hefur Landskrifstofa Erasmus+ til úthlutunar um 5 milljónir evra eða rúmlega 700 milljónir íslenskra króna.

Vinna við mat á umsóknum í flokkinn Nám og þjálfun stendur nú yfir. Valnefnd mun funda þann 5. maí nk. og mun ákvörðun um úthlutun væntanlega liggja fyrir um miðjan maí. Mat og úrvinnsla umsókna um Samstarfsverkefni tekur lengri tíma og vænta má að hægt verði að tilkynna niðurstöðu valnefnda þeirra verkefna um miðjan júní.
 

Alþjóðleg ráðstefna um vendinám styrkt af Erasmus+

Keilir stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um vendinám þann 14. apríl nk. og vinnubúðum um vendinám þann 15. apríl, ásamt íslenskum og erlendum samstarfsaðilum. Aaron Sams og Jonathan Bergmann forsprakkar vendinámsins verða aðal framsögumenn á ráðstefnunni, auk þess sem þeir munu stýra vendináms vinnubúðunum.

Ráðstefnan er liður í verkefninu FLIP - Flipped Learning in Praxis, sem fékk tveggja ára styrk frá Erasmus+ menntaáætlun ESB árið 2014. Markmið verkefnisins er að búa til handbækur fyrir kennara sem hafa hug á að innleiða vendinám í kennslu og skólastarfi.
Nánari upplýsingar, dagskrá og skráning
 

Ný handbók um vinnu og nám erlendis

Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar (Euroguidance) gaf á dögunum út handbók um vinnu og nám erlendis. Handbókin er ætluð náms- og starfsráðgjöfum og öðrum þeim sem leiðbeina fólki sem hyggur á dvöl erlendis í lengri eða skemmri tíma. Handbókin hefur að geyma upplýsingar um réttindi fólks á erlendri grundu, möguleika á námsstyrkjum, góð ráð um atvinnuleit og þá möguleika sem bjóðast náms- og starfsráðgjöfum sérstaklega.

Handbókina er hægt að sækja í rafrænni útgáfu hér en einnig er hægt að fá prentað eintak sent í pósti með því að hafa samband við Dóru Stefánsdóttur.
 

Tækifæri fyrir tungumálakennara í Evrópusamstarfi!

Evrópumerkið 2015

Umsóknarfrestur er 1. júní nk.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytið veita Evrópumerkið sem viðurkenningu fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Evrópumerkið er veitt annað hvort ár og er ráðgert að viðurkenning verði veitt á Degi tungumála 26. september 2015.  
 
Í ár veitir mennta- og menningarmálaráðuneyti sérstakan fjárstyrk upp á 300.000 krónur sem skal nýttur til kynningar og þróunar á því verkefni sem hlýtur Evrópumerkið.
Nánari upplýsingar


Tungumálamiðstöðin í Graz auglýsir eftir umsóknum

Umsóknarfrestur er 1. maí nk.

Í nýju áætluninni Languages at the heart of learning er lögð áhersla á að tungumálanám sé forsenda alls náms. Allir kennarar á öllum skólastigum og í öllum greinum hafa hlutverki að gegna í þróun málfærni nemandans. Færni í tungumálum kennslu (languages of schooling), móðurmálum, erlendum málum og skilningur á erlendri menningu eru forsendur allrar menntunar.

Bæði einstaklingar og teymi (skipuð 4 umsækjendum frá jafnmörgum ECML löndum) geta sótt um. Hægt er að sækja um að stýra verkefni eða sækja um sem þátttakandi í teymi.
Nánari upplýsingar

Share
Tweet
Forward to Friend
Copyright © 2015 Rannís, All rights reserved.


unsubscribe from this list    update subscription preferences 

Email Marketing Powered by Mailchimp