Copy
Tækifæri og styrkir í Evrópusamstarfi
Skoða þennan póst í vafra
Facebook
Facebook
erasmusplus.is
erasmusplus.is

Fréttabréf Erasmus+ í nóvember 2015

  • Umsóknarfrestir Erasmus+ 2016
  • Skrifað undir samninga við 13 skóla upp á tæpar 50 milljónir króna
  • Sænskt skólafólk lærir um tvö íslensk læsisverkefni
  • Fyrsti lögfræðingurinn í Erasmus + starfsnámi!
  • Evrópumerkið afhent

Umsóknarfrestir Erasmus+ 2016


Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur birt auglýsingu um umsóknarfresti fyrir Erasmus+ áætlunina fyrir árið 2016.  Umsóknarfrestur fyrir náms- og þjálfunarverkefni (K1) er 2. febrúar 2016 og umsóknarfrestur fyrir fjölþjóðleg samstarfsverkefni (K2) verður 31. mars 2016.

  • Náms- og þjálfunarverkefni veita starfsfólki menntastofnana og fyrirtækja á öllum skólastigum, sem og nemendum í starfsmenntun og á háskólastigi, tækifæri til að sinna námi, starfsþjálfun og kennslu í 33 Evrópulöndum.
     
  • Samstarfsverkefni eru 2-3 ára þematengd verkefni sem eiga að stuðla að nýsköpun í menntun á öllum skólastigum og yfirfærslu þekkingar og reynslu á milli minnst þriggja Evrópulanda. 
Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi hvetur alla  sem hafa hug á  að sækja um að byrja að að undirbúa verkefnisumsóknir sem allra fyrst. Nánari upplýsingar um verkefnaflokka er að finna á heimasíðu Erasmus+ en starfsfólk Landskrifstofu veitir einnig ráðgjöf í síma og á skrifstofu sé þess óskað.

 

Stoltir verkefnisstjórar við undirritun samninga ásamt Andrési Péturssyni, verkefnisstjóra skólahluta Erasmus+ og Ágústi H. Ingþórssyni, sviðstjóra Mennta- og menningarsviðs Rannís.

Skrifað undir samninga við 13 skóla upp á tæpar 50 milljónir króna


Það var kátt á hjalla í Borgartúninu þriðjudaginn 6. október þegar forsvarsmenn nýrra Erasmus+ samstarfsverkefna í leik-, grunn- og framhaldsskólum mættu til að skrifa undir samninga við Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi. Styrkupphæðinni, rúmlega 300 þúsund evrum var úthlutað til 13 skóla víðs vegar um land.  Hæsti styrkurinn sem nemur 72 þúsund evrum rennur til Grandaskóla til verkefnis um náttúruvísindi og umhverfi í 1.-4. bekk.


Erasmus+ samstarfsverkefni á sviði leik- grunn- og framhaldsskóla eru verkefni milli tveggja eða fleiri skólastofnana til tveggja eða þriggja ára.  Verkefnunum 13 sem nú hlutu styrk er stýrt frá öðru Evrópulandi en íslensku þátttökuskólarnir fá fjármagn til að standa straum af eigin þátttöku. Til viðbótar styrkti Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi 4 sams konar skólaverkefni um 332.380 þúsund evrur.  Þannig fara nú 17 verkefni af stað með þátttöku íslenskra skólastofnana.

Verkefnin sem hlutu styrk eru afskaplega fjölbreytt og skemmtileg. Hvað varðar þema þá snúa nokkur að grunnfærni í læsi og stærðfræði, eitt verkefni snýr að jafnréttismálum og kynjafræði, annað að fjölmenningu, nokkur eru tengd raunvísindakennslu og vísindum og enn önnur snúa að því að hlúa að þeim sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Eitt verkefnanna tengist íþróttum og hvernig hægt er að nýta íþróttir til að hjálpa þeim börnum sem af ýmsum ástæðum verða utanveltu í samfélagi jafnaldra sinna.  Nemendur á ólíkum aldri taka virkan þátt í mörgum verkefnum, s.s. í gegnum nemendaskipti.

Á heimasíðu Erasmus + er að finna lista yfir þá skóla sem hlutu styrk
Frá vinstri, Eiríkur Þorvarðarson, Ásthildur Snorradóttir, Guðný Reynisdóttir og Gyða Arnmundsdóttir.

Sænskt skólafólk lærir um tvö íslensk læsisverkefni


Læsisverkefni Reykjanesbæjar og Hafnarfjarðar voru í forgrunni á ráðstefnu sænskra skólastjórnenda og sveitarstjórnarmanna sem var haldin í Stokkhólmi 23. október síðastliðinn.


Landskrifstofa Erasmus+ í Svíþjóð, UHR (Universitets- och högskolerådet) stóð að ráðstefnunni og bauð íslensku verkefnunum að taka þátt. Á ráðstefnunni sem bar yfirskriftina „Läs- och skrivinlärning - en nationell och internationell angelägenhet“ sem útleggst á íslensku „Lestur og ritun – innlent og alþjóðlegt áhyggjuefni“ var rætt um ólíkar leiðir til að auka getu nemenda í lestri og ritun en árangur sænskra skólabarna í lestri á PISA prófunum er ekki nægilega góður, ekkert frekar en okkar Íslendinga.

Gyða Arnmundsdóttir og Guðný Reynisdóttir kynntu mælanlegan árangur af læsisstefnu Reykjanesbæjar (Framtíðarsýn) sem var hleypt af stokkunum 2011 og Eiríkur Þorvarðarson og Ásthildur BJ. Snorradóttir kynntu heildstæða læsistefnu Hafnarfjarðar „Lestur er lífsins leikur“ frá 2014 en stefnan snýr að því að efla leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar í skimunum, mælingum og  snemmtækri íhlutun.   Sérstaka athygli athygli vakti meðal fundarmanna góður árangur nemenda á Reykjanesi á samræmdum prófum allt frá því að læsisstefnunni var hrint í framkvæmd og hversu skipulögð og öguð íslensku verkefnin eru varðandi skimanir, mælingar og eftirfylgni innan skólanna. 

Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi hefur sett sem forgangsatriði að fá sem flestar verkefnisumsóknir um samstarfsverkefni sem snúa að því að bæta málþroska og hæfni í lestri og stærðfræði á leik- og grunnskólastigi. Næsti umsóknarfrestur um samstarfsverkefni er 31.mars 2016.


Fyrsti lögfræðingurinn í Erasmus + starfsnámi!


„Ég held að allir hafi gott af því að stíga út úr sínu hefðbundna umhverfi, standa á eigin fótum, gera eitthvað nýtt og öðlast meiri víðsýni“ segir Birna Guðmundsdóttir, 23 ára nýútskrifaður lögfræðingur  frá  HÍ sem í haust hóf starfsnám hjá þýska fyrirtækinu ,,Changers“ í Berlín með aðstoð styrks frá Erasmus+.


Birna vildi ekki fara beint í framhaldsnám eftir að hafa lokið grunnnáminu. Hana langaði að breyta um umhverfi, öðlast annars konar reynslu og sýn áður en hún færi í frekara nám. Hún sótti því um starfsnám hjá þessu þýska fyrirtæki. Fyrirtækið selur app til fyrirtækja sem hvetur til heilsusamlegs lífsstíls og umhverfisvænnar hegðunar. Í grófum dráttum er markmiðið að starfsmenn skilji bílana eftir heima og hjóli eða gangi í vinnuna. Hlutverk Birnu innan fyrirtækisins felst annars vegar í því að koma á viðskiptum milli Changers og norrænna fyrirtækja og hins vegar að eiga í samskiptum fyrirtækisins út á við. Einnig hefur hún fengið tækifæri til að koma að þróun appsins. „Viðhorf mitt til menntunar hefur breyst og mér finnst reynsla á vinnumarkaði geta falið í sér hina bestu menntun. Maður sér að hlutirnir eru ekki jafn klipptir og skornir eins og maður heldur. Það er nóg af tækifærum fyrir frjóar hugsanir og sniðugar hugmyndir eftir akademískt nám“. Birna segir að hún hafi öðlast aukið sjálfstæði eftir að hún flutti út „Maður þarf að reiða sig á sjálfan sig, hafa trú á sér og því sem maður kann. Ég er hins vegar afar þakklát minni menntun úr HÍ og tel hana nýtast mér vel í starfsnáminu þótt ég vinni enn sem komið er lítið við lögfræðitengd málefni“. 

Stúdentar á öllum stigum háskólanáms geta sótt um styrk hjá Erasmus+ fyrir starfsnám erlendis. Hægt er að fara í starfsnám til allra þátttökulanda Erasmus+. Stúdentar geta farið í starfsnám sem hluta af námi eða að lokinni útskrift í 2-12 mánuði í senn. Vert er að benda áhugasömum stúdentum á að hafa samband við alþjóðaskrifstofur eða alþjóðafulltrúa sinna háskóla til að frá frekari upplýsingar. Einnig er hægt að nýta sér heimasíðuna erasmusintern til að leita að starfsnámstækifærum innan Evrópu.
Ráðuneytisstjóri Mennta- og menningarmálaráðuneytis afhendir Evrópumerkið í tungumálum 2015. Frá vinstri Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri MMR, Þorbjörg Þorsteinsdóttir og Hulda Karen Daníelsdóttir vinningshafar, Sunna Viðarsdóttir fulltrúi MMR í valnefnd Evrópumerkis. 

Evrópumerkið afhent


Verkefnið „Velkomin: úrræði fyrir móttöku og samskipti“ sem stýrt er af Huldu Karen Daníelsdóttur og Þorbjörgu Þorsteinsdóttur hjá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða hlaut Evrópumerkið (European Language Lable) í tungumálum í ár. Verðlaunin voru afhent á Evrópska tungumáladeginum hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur 26. september s.l. 

Evrópumerkið er gæðaviðurkenning Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins á framúrskarandi tungumálaverkefnum. Hvert þátttökuland útnefnir faglega dómnefnd sem les yfir umsóknir og velur besta verkefnið. Í ár mun vinningsverkefnið jafnframt hljóta 300 þúsund króna styrk til að þróa verkefnið frekar og kynna.  Eitt af forgangsatriðum Evrópumerkisins í ár var Tungumál og félagsleg
aðild / margbreytilega samfélagið (Languages for social inclusion) og þótti þetta verkefni falla sérstaklega vel að forgangsatriðum. 

Verkefnið er samskiptatæki bæði til að kenna íslensku sem annað tungumál og til að auðvelda skólum móttöku, aðlögun og samskipti við erlenda nemendur og foreldra þeirra. Efnið er margvíslegt og skiptist í þrettán flokka á sex tungumálum. Verkefnið byggir á margvíslegri opinberri stefnumótun og styður við fjölmenningarlegt skólastarf. Nýbreytnin felst einkum í því að strax við komuna til Íslands geta nemendur sem ekki eiga íslensku að móðurmáli og foreldrar þeirra haft auðveldari samskipti við skólasamfélagið gegnum samskiptatækni sem verkefnið býður upp á. Verkefnið er aðgengilegt á vef Tungumálatorgs HÍ þar sem unnt er að kynnast því náið á grundvelli skýrra leiðbeininga
Öll réttindi áskilin © 2015 Rannís


afskrá mig    uppfæra skráningu 

Email Marketing Powered by Mailchimp